Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 15:45:54 (5260)

2004-03-11 15:45:54# 130. lþ. 82.7 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta mál var til umræðu fyrir tveim eða þrem dögum og þá lauk þeirri umræðu ekki en ég ætlaði að koma að fáeinum sjónarmiðum í sambandi við það. Það er skemmst frá því að segja að ég styð frv. og tel ekki ástæðu til þess lengur að hafa uppi þann hátt sem er á flutningsjöfnunarsjóði. Það ekki vegna þess að ég telji ekki ástæðu til að styðja við byggðir landsins eða slíkt en ég held að þetta sé aðferð sem hafi runnið sitt skeið. Hún var vissulega sett á á þeim tíma þegar hér var ein sementsverksmiðja sem framleiddi sement og innflutningur á sementi í samkeppni við hana var enginn. Nú hefur umhverfið breyst þannig að komin er samkeppni í sementssölu í landinu og það hefur breyst að því leyti til líka að flutningur á sementi hefur færst í auknum mæli upp á land. Það er nokkuð ljóst að flutningsjöfnunarsjóðurinn hefur að hluta til haft þessi áhrif.

Ef menn skoða hvernig flutningsjöfnunin hefur komið út á undanförnum árum er líka nokkuð ljóst að það er tiltölulega lítill hluti landsins sem fær jákvæða niðurstöðu í þennan flutning. Hæstu tölurnar í plús hvað varðar flutninginn eru á Norðurl. e. með tæpar 28 millj. árið 2002 og á Austurlandi í kringum 15,5 millj. Frá því þetta var, þ.e. árið 2002, hefur verið komið upp sementssílóum á þessum slóðum fyrir austan og síðan hefur flutningur á sementi inn á þessi svæði líka breyst.

Það er líka ástæða til að vekja athygli á því að það eru ekki aðeins opinberir aðilar sem eru að jafna flutningskostnað í landinu, fyrirtæki í verslunarrekstri hafa líka verið að jafna út flutningskostnaðinum í landinu. Bónusverslanirnar eru t.d. með sama verð úti á landi og á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit að byggingarvöruverslun á Ísafirði og á fleiri stöðum er að bjóða sína vöru á sama verði þar og á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf því ekki endilega að þýða hærra sementsverð þó svo að þessi jöfnunarsjóður verði lagður af. Það verður fróðlegt að sjá hver framvindan verður eftir að búið er að leggja hann af, hvort seljendur sements í landinu muni þá sjálfir sjá til þess að bjóða sementið á svipuðu verði.

Ég vildi bara segja að þó að ég styðji það að þessi sjóður verði lagður af tel ég ástæðu til að skoða með heildstæðum hætti hvernig koma eigi til móts við þau vandamál sem skapast vegna þess að það er mjög dýrt að flytja vörur, ekki bara sement heldur allar vörur út um landið og það bætir ekki mikið þá stöðu þó að í gangi sé flutningsjöfnunarsjóður á sementi. Ef menn vilja í raun og veru taka á þessum vanda þarf að gera það með einhverjum aðferðum sem eru altækari og hafa meiri áhrif en þetta því almenningur úti á landi hefur í sjálfu sér engin ósköp út úr þessu nema um sé að ræða mjög afmörkuð dæmi, t.d. þegar menn eru að byggja sér hús eða eitthvað slíkt, eru í einhverjum framkvæmdum þá er gagn að því að hafa slíka flutningsjöfnun en á öðrum tímum fyrir fólk með sinn venjulega heimilisrekstur hefur flutningsjöfnun á sementi ekki mikið að segja fyrir viðkomandi. En þá hefur líka mikið að segja að allur flutningur er og hefur verið mjög dýr út á land. Ég vil því hvetja hæstv. iðnrh., sem jafnframt er byggðamálaráðherra, til þess að flýta þeim störfum sem í gangi eru við að skoða möguleika á því að jafna á einhvern hátt flutningskostnað á landsbyggðinni og að það verði þá gert með almennum hætti sem ekki raskar viðskiptalegu umhverfi. Það er mikið atriði líka svo ekki verði óæskileg áhrif á rekstur fyrirtækja eða samkeppni milli viðskiptaaðila sem eiga hlut að máli ef staðið verður í jöfnunaraðgerðum.

Þetta var það sem ég vildi koma á framfæri hvað þetta varðar og ég ætla ekki að hafa lengra mál um það.