Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 16:03:14 (5266)

2004-03-11 16:03:14# 130. lþ. 82.7 fundur 690. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (afnám laganna) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ómögulegt að halda því fram að frv., ef það verður að lögum, sé fjandsamlegt gagnvart landsbyggðinni. Þá er allt of mikið sagt. 0,2--0,4% af byggingarkostnaði er ekki stórmál. Við skulum horfa á stóru málin. Þar skulum við taka á. Þar er ég tilbúin að taka á með hv. þm., t.d. í sambandi við málið sem blandast hefur í umræðuna en ekki á dagskrá fyrr en í næstu viku, varðandi jöfnun á rafmagni.

Ég er mjög sátt við þá niðurstöðu sem fékkst með frv. Ég veit reyndar að hv. þingmenn Vinstri grænna vildu ganga miklu lengra í jöfnun og fara alveg niður í 30 kílóvött í sambandi við flutningskerfið. Þar að auki vildu þeir ekki taka fjármagn úr ríkissjóði til að borga niður kostnað í dreifbýlinu. Það hefði þýtt mikinn kostnaðarauka fyrir höfuðborgarbúa og fólk á suðvesturhorninu.

Mér finnst það takmörkunum háð hve langt er hægt að ganga í þeim efnum. Við verðum að finna málamiðlun og ég tel að hún hafi fundist í því máli.