Stytting þjóðvegar eitt

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 16:16:13 (5269)

2004-03-11 16:16:13# 130. lþ. 82.8 fundur 553. mál: #A stytting þjóðvegar eitt# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[16:16]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir hönd okkar í Frjálsl. segja að við fögnum þessari þáltill. Við teljum hið besta mál að úttekt verði gerð á því hvernig megi stytta og bæta leiðir á þjóðvegi eitt og aðalvegum. Það er í samræmi við stefnu Frjálsl. Þar segir m.a. að meginmarkmið með nýjum vegum verði að stytta vegalengdir milli þéttbýlisstaða og landsvæða með varanlegum framtíðarlausnum svo sem jarðgöngum og þverun fjarða.

Mig langar til að koma aðeins inn á jarðgöng því það eru mjög merkileg og góð mannvirki. Ég vil t.d. leyfa mér að benda á reynsluna af Hvalfjarðargöngum sem hafa verið í rekstri um nokkurra ára skeið. Sú reynsla er afar góð. Ég held að enginn vafi sé á því að þó þau göng hafi verið dýr í gerð hefur kostnaður við rekstur þeirra frá því að þau voru gerð ekki verið mjög mikill og sennilega óverulegur ef við miðum við þann kostnað sem annars hefði farið í að halda við veginum fyrir Hvalfjörð.

Við skulum heldur ekki gleyma öðrum þætti sem er mjög mikilvægur og allt of lítið minnst á, að slysatíðni hefur stórlega minnkað. Fyrr á árum var alvanalegt að heyra um mjög alvarleg bílslys í Hvalfirði sem annaðhvort ollu örkumlun eða dauða. Það voru nokkur banaslys, það var lenskan í Hvalfirði nánast á hverju einasta ári. Síðan Hvalfjarðargöngin komu hefur ekki orðið eitt einasta slys að talist geti, enginn hefur meiðst þar, enginn hefur hlotið dauða af því að fara í gegnum göngin. Ég man heldur ekki til þess að nokkur hafi slasað sig á því að fara fyrir Hvalfjörð eftir að göngin voru gerð.

Þann þátt tel ég, virðulegi forseti, að við ættum að taka með í umræðuna um vegamál. Þetta snýst ekki bara um að stytta sér leið, þetta snýst líka um umferðaröryggi. Það er mín skoðun að við ættum alvarlega að íhuga að setjast niður og gera áætlun um að gera þau jarðgöng sem við þurfum að gera. Þetta eru ekkert afskaplega mörg göng þegar upp er staðið, kannski átta til tíu stykki sem við þurfum að bora. Gera hreinlega áætlun um að fara í þetta verkefni og ljúka því á einhverjum árafjölda. Ákveða hvar við ætlum að byrja, í hvaða röð við ætlum að taka þetta og hvar við ætlum að enda. Þá erum við búin að leysa þetta í eitt skipti fyrir öll. Víst mun þetta kosta pening, víst mun þetta verða dýrt en þá finnst mér að við ættum að íhuga það hreinlega að taka langtímalán í útlöndum til að fara í slíkar samgöngubætur, því jarðgöng eru varanlegar samgöngubætur. Þau spara mikinn pening í rekstrarkostnaði við vegi, bæði viðhald, mokstur og annað þess háttar og þau spara líka mörg mannslíf og hlífa okkur við slysum, ég er alveg sannfærður um það.

Ég hygg að þessi átta til tíu göng sem við þyrftum að bora til að leysa þessi mál umhverfis landið og stytta þá þjóðveg nr. eitt allverulega, að lengd þeirra er miklu minni en lengd þeirra ganga sem nú er verið að bora til Kárahnjúka fyrir vatn. Ég tel einnig að fara eigi hiklaust í Vestmannaeyjagöngin, virðulegi forseti, ef jarðfræðilegar forsendur eru fyrir hendi.