Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 16:52:26 (5272)

2004-03-11 16:52:26# 130. lþ. 82.9 fundur 565. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (upplýsingaskylda, málshöfðunarheimild) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[16:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Virðulegi forseti. Svo sannarlega hefði verið viðeigandi að þessi umræða hefði farið fram sl. mánudag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars. En jafnréttisumræða á svo sem alltaf rétt á sér og ég fagna því að hún skuli fara fram hér og nú. Hún er mjög nauðsynleg og ég get svo sannarlega tekið undir þau atriði sem komu fram í máli hv. þm. Atla Gíslasonar og þær brtt. sem koma fram í frv. hans.

Jafnrétti á langt í land og kvennastörf eru ekki metin að verðleikum. Þetta er svo sannarlega rétt og satt. Verk karla eru metin meira. Það var auðvitað sérstakt að hlusta á umræðurnar í gær í fyrirspurnatíma þegar því var lýst hvernig störfin á Litla-Hrauni eru metin.

Við búum við kynbundið launamisrétti og það er einmitt eitt af því sem Samf. hefur barist sérstaklega gegn og hefur sett á oddinn í málflutningi sínum. Sérstaklega vil ég minna á það að í síðustu kosningabaráttu, fyrir kosningarnar í vor, var jafnrétti kvenna og karla sérstakt baráttumál Samf. Í framhaldi af því lögðu þingmenn Samf. fram þáltill., þar sem 1. flm. var hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, um framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kynjanna. Í stefnuskrá okkar fyrir kosningarnar kom það fram að ef Samf. kæmist til áhrifa eftir kosningar yrði fyrsta mál á dagskrá að vinna að leiðréttingu á kjörum og starfsframa kvenna hjá hinu opinbera. Í framhaldi af því kom fram þessi till. til þál. sem ég ætla að lesa hér, tillögugreinina, vegna þess að hún lýsir vel í hverju tillagan felst.

Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa framkvæmdaáætlanir til sex ára með því markmiði að ná fram fullu launajafnrétti kynjanna í samræmi við ákvæði 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Framkvæmdaáætlanirnar verði tvær, annars vegar fyrir opinberan vinnumarkað og hins vegar fyrir almennan vinnumarkað. Þær skulu unnar eftir föngum í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga og í þeim skal sett fram tímaáætlun um aðgerðir. Beitt verði ákvæði 22. gr. jafnréttislaga um jákvæða mismunun, að undangenginni rannsókn á launamun kynjanna og öðrum þáttum launakjara, sbr. 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Greina skal uppbyggingu launakerfa og kjarasamninga með tilliti til kerfislægrar mismununar.

Framkvæmdaáætlanirnar verði lagðar fyrir Alþingi haustið 2004. Á tveggja ára fresti fram til ársins 2010 skal fjármálaráðherra í samráði við félagsmálaráðherra leggja fyrir þingið skýrslu um framvindu mála.``

Þetta er sú tillaga sem við, þingmenn Samf., höfum lagt fram og búið er að mæla fyrir í þinginu. Þegar málið var hér til umræðu tók hæstv. ráðherra undir nauðsyn þess að slík vinna færi í gang. Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld gangi á undan með góðu fordæmi og virði lög og alþjóðasamþykktir um jöfn laun karla og kvenna og að fjmrh. sem er viðsemjandi opinberra starfsmanna sýni frumkvæði og ábyrgð í verki með því að beita sér fyrir markvissri áætlun um að koma á launajafnrétti kynjanna. Þetta er hægt að gera í gegnum kjarasamninga við opinbera starfsmenn, með eftirliti með því að opinberar stofnanir og ráðuneyti fylgi markvisst jafnréttisáætlun um að allar starfstengdar greiðslur eða hlunnindi skv. 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gangi jafnt til kvenna og karla fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf.

Mig langar til að nefna árangur Reykjavíkurborgar. Auðvitað ættu stjórnvöld að taka sér hana til fyrirmyndar. Árangur Reykjavíkurborgar í því að draga úr launamun kynjanna er mjög mikill og ánægjulegur. Það kom fram í könnun Félagsvísindastofnunar árið 2001 að óútskýrður minnkandi kynbundinn launamunur hjá Reykjavíkurborg hafi farið úr 15,5% á árinu 1995 niður í 7% árið 2001. Sé miðað við sömu aðferðafræði jókst hlutur kvenna í æðstu stjórnunarstöðum úr 10% í 50% á fáum árum.

Það kemur fram í formála launakönnunar Reykjavíkurborgar sem gefin var út 2002 að borgaryfirvöld telji að rekja megi þennan árangur til víðtækra aðgerða á mörgum sviðum í senn, til kjarasamningagerðar þar sem sérstök áhersla var lögð á að hækka launin í hefðbundnum kvennastéttum, til margháttaðra samræmingaraðgerða á kjarasamningum, svo sem milli félaga ASÍ og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, til sérstakra uppbóta til borgarstofnana með hátt hlutfall kvenna í hefðbundnum kvennastörfum, svokallaðir kvennapottar, og aðgerða innan einstakra borgarstofnana á grundvelli starfsáætlunar í jafnréttismálum, endurröðunar í störfum í kjölfar matskerfis á grundvelli hugmyndafræði starfsmats og svona mætti lengi telja.

Síðan hefur Reykjavíkurborg ásamt helstu viðsemjendum ráðist í gagngera uppstokkun á allri launamyndun með því að innleiða kynhlutlaust starfsmat en það er umfangsmesta einstaka aðgerðin frá upphafi sem Reykjavíkurborg hefur ráðist í til að draga úr kynbundnum launamun.

Ég vildi nefna þetta sérstaklega vegna þess að það er til fyrirmyndar hvernig Reykjavíkurborg hefur staðið að þessum málum og hvaða árangri hún hefur náð. Þetta eru einmitt atriði sem við höfum lagt áherslu á, Samf., í stefnu okkar og ég tel að verði þessi þáltill. sem við höfum lagt hér fram samþykkt ætti að nást árangur í jafnréttismálum, sérstaklega í launamálum. Auðvitað þarf samt að gera margt fleira og ég tel að þær tillögur til lagabreytinga sem koma hér fram í frv. hv. þm. Atla Gíslasonar o.fl. séu mjög mikilvægar í þá átt. Sérstaklega vil ég taka undir styrkingu Jafnréttisstofu því að það tel ég vera mjög stórt og mikilvægt mál.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma inn í þessa mikilvægu umræðu með þessi atriði en styð heils hugar það mál sem hér er til umræðu.