Lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 18:02:18 (5279)

2004-03-11 18:02:18# 130. lþ. 82.10 fundur 568. mál: #A lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk# þál., AtlG
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[18:02]

Atli Gíslason:

Herra forseti. Ég fagna þessari endurfluttu tillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og þakka henni eljusemi og dugnað við að framfylgja þeirri hugsjón eins og hún hefur gert um árabil. Málið er mér nokkuð skylt. Ég hef komið að því alveg frá 1974, fyrst þegar ég var við framhaldsnám í Noregi og kynntist starfsemi sem kölluð var Juss-Buss. Eftir það var ég ásamt félaga mínum með ókeypis lögfræðiaðstoð á árunum 1977--1978 sem varð síðan að lögfræðiaðstoð Orators seinna, upp úr 1980. Þar hef ég verið ásamt Birni Ólafi Hallgrímssyni hæstaréttarlögmanni, Hilmari Magnússyni hæstaréttarlögmanni, Hildu Rós Úlfarsdóttur héraðsdómslögmanni og Karli Ó. Karlssyni, laganemum til ráðgjafar þegar aðstoðin er veitt á hverju fimmtudagskvöldi. Þar veita laganemar mjög gagnlega ráðgjöf. Hún er ekki síður gagnleg laganemum til náms og mikilvæg reynsla þeim til handa fyrir framtíðina. Ég beini því til þingmanna og fjárlaganefndar að veita laganemum og lögfræðiaðstoð Orators dyggari stuðning til starfseminnar en verið hefur. Ég ætla þó ekki að vanmeta að dómsmrh. hefur veitt stuðning sem hefur gert kleift að halda þessari starfsemi úti í rúm 20 ár.

Á aðalfundi Lögmannafélagsins 1977--1978 flutti ég tillögu um gjafsókn ásamt Ragnari Aðalsteinssyni. Hún var samþykkt. Skipuð var nefnd sem ég átti sæti í og hún skilaði af sér frv. sem ekki varð að lögum en við endurskoðun og réttarfarsbreytingar árið 1992 urðu að lögum núgildandi gjafsóknarákvæði sem hv. frummælandi hefur gert grein fyrir.

Á því kerfi eru ágallar. Þeir eru slíkir að það er brýnt að þessi till. til þál. nái fram að ganga. Ég vil hlaupa örstutt á þeim göllum. Í fyrsta lagi, sem er e.t.v. það alvarlegasta, virðist gjafsókn í opinberum málum vart vera til þó hún sé skuldbundin í mannréttindasáttmálanum, að fangar eigi að fá kostaða vörn sína, þ.e. ekki fangar heldur þeir sem eru sóttir í opinberum málum. Það er svo í orði kveðnu að ríkið borgar verjanda þóknanir lögmanna en endurkrefur hina dæmdu jafnvel mörgum árum eftir að dómur féll. Það er óviðunandi fyrir menn sem hafa breytt lífsferli sínum, stofnað fjölskyldur og komið undir sig fótunum, að þá birtist allt í einu innheimtukrafa frá ríkissjóði 5--7 árum seinna þar sem á að greiða málskostnað. Auðvitað á að skoða efni og aðstæður hins ákærða þegar ákæra er gefin út og málsmeðferð fer fram fyrir dómi. Það á að vera grundvöllur þess að gjafsókn sé veitt og málsvörnin ókeypis eins og mælt er fyrir í mannréttindasáttmálanum. Þetta er blettur á þessum málum.

Annað vil ég nefna sem gerir þessa till. til þál. brýna. Í upphaflegum tillögum sem samþykktar voru á aðalfundi Lögmannafélags Íslands var bæði tekið á þessu með gjafsókn í opinberum málum og líka því sem við köllum gjafsókn utan réttar. Nú er það svo að við búum við sífellt flóknara réttarkerfi og stjórnsýslukerfi, eins og sjá má af þeim lagafrumvörpum sem við erum að sýsla með á hverjum degi. Það verður sífellt erfiðara fyrir hinn almenna borgara að fóta sig á réttarsviðunum, t.d. réttarsviðinu umhverfismál eða réttarsviðum þar sem almannaréttur gildir. Fjöldi mikilsverðra mála er rekinn utan dómstóla. Töluvert af forsjármálum var rekið utan dómstóla. Þau koma nú meira inn fyrir dómstóla vegna gjafsóknarákvæðanna.

Í framhaldinu má nefna mál sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndum, t.d. úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála. Mér var tjáð á fundi umhvn. í morgun að í landinu væru starfandi milli 40 og 50 sjálfstæðar óháðar úrskurðarnefndir. Ég hef í tilefni af því lagt fram fyrirspurn um það í dag, þ.e. hverjar þær eru og kostnað af þeim. Ég tel að þjóðfélagið hafi farið út á ranga braut með þessum úrskurðarnefndum. Ég vil leggja þau mál undir stjórnsýsludómstól eða hina almennu dómstóla, herra forseti. Svo gerist það í úrskurðarnefndunum að þar er úrskurðað og menn þurfa í kjölfarið hugsanlega að fara fyrir dómstóla með skaðabótakröfur ef brotið hefur verið á þeim.

Þetta er eitt, þ.e. úrskurðarnefndirnar 40--50. Þar eru engin gjafsóknarákvæði og enginn málskostnaður dæmdur. Það er yfirleitt ekki heimilt. Það er heimilt hjá yfirskattanefnd og í einni eða tveimur nefndum öðrum. Ég var að fá tvo úrskurði varðandi fasteignamat þar sem bæði málin unnust. Í kringum það var mikill kostnaður en í hvorugu dæminu var greiddur kostnaður vegna þess að það skortir lagaheimild.

Almenningur á ríkuleg erindi við stjórnvöld á hverjum degi og stofnanir ríkisins, Tryggingastofnun og hingað og þangað. Þar eru kveðnir upp úrskurðir þar sem koma oft upp lögfræðilega erfið álitamál til úrlausnar. Á slíkum málum getur efnalítið fólk ekki tekið. Það getur ekki leitað til lögmanns. Það getur ekki borgað lögmanni. Þessi staða mála er okkur til skammar. Þess vegna ítreka ég að ég fagna þessari tillögu og þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur elju hennar í þessum málum.