Lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk

Fimmtudaginn 11. mars 2004, kl. 18:09:23 (5280)

2004-03-11 18:09:23# 130. lþ. 82.10 fundur 568. mál: #A lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk# þál., Flm. JóhS
[prenta uppsett í dálka] 82. fundur, 130. lþ.

[18:09]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka þær undirtektir sem málið hefur fengið hjá hv. 9. þm. Reykv. s. og hv. 8. þm. Reykv. n., Atla Gíslasyni. Það var mikill fengur, herra forseti, að fá þessi innlegg, ekki síst frá hv. þm. Atla Gíslasyni sem vissulega þekkir mjög vel til þessa máls. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar ég hlustaði á mál hans að hann hefur mikið komið að þessu í gegnum Orator eins og hann nefndi. Hann hefur gífurlega þekkingu á slíkum málum og því er það mjög mikilvægt innlegg, herra forseti, við 1. umr. málsins að fá álit hans á þessari till. til þál. Athyglisvert var að heyra hann lýsa þeim ágöllum sem eru á framkvæmd mála í dag, t.d. varðandi gjafsóknina. Það er mikilvægt að fá þau sjónarmið inn í nefndina sem fær þetta mál til umfjöllunar. Ég mun svo sannarlega upplýsa a.m.k. fulltrúa Samf. um það. Fulltrúar Vinstri grænna vita örugglega líka um þá ágalla sem hér voru nefndir.

Ég verð að segja, herra forseti, að mér var ekki kunnugt um þennan ágalla á gjafsóknarleiðinni sem hv. þm. Atli Gíslason vekur athygli á, að þar séum við hreinlega að brjóta mannréttindasáttmála. Mér var ekki kunnugt um að staðan væri svo alvarleg. Mér var ekki ljóst að framkvæmdin væri virkilega með þeim hætti að þótt ríkisvaldið borgi þóknanir lögmanna þá sé það bara að lána þeim sem dæmdir eru fyrir þóknuninni og byrji svo að elta menn uppi þegar þeir eru lausir úr fangelsi. Yfirleitt eiga fangar erfiðan tíma fram undan þegar þeir losna úr fangelsum. Þeir þurfa að byggja sjálfa sig upp og takast á nýjan leik á við lífið, koma sér upp þaki yfir höfuðið og fleira sem menn höfðu ekki gert áður en þeir voru settir í fangelsi. Þess vegna er það mannvonska og ekki hægt að tala um annað ef þannig er virkilega haldið á málum að fyrrverandi fangar séu eltir uppi eins og hv. þm. lýsti.

Ég tel fulla ástæðu til að leggja fram fyrirspurn um hvernig þetta hefur virkilega verið framkvæmt og hvað ríkissjóður hefur getað endurheimt af föngum með þessum hætti. Kannski veit hv. þm. um það en ég get ekki ímyndað mér að það sé mikið. Það eina sem þeir hafa þá upp úr þessu krafsi er að brjóta menn niður á nýjan leik þegar þeir koma úr fangelsi. Hv. þm. upplýsir einnig um gjafsóknir utan réttar. Það eru vissulega mál sem þarf að skoða, þ.e. mál sem rekin eru fyrir úrskurðarnefnd eins og hv. þm. upplýsir.

Ég tek líka undir með hv. þm. varðandi það sem hann nefnir um Orator. Það er mjög mikilvægt starf, ekki síst meðan við höfum engin úrræði og enga lögfræðiaðstoð eins og nágrannalönd okkar bjóða upp á fyrir efnalítið fólk. Auðvitað er mikilvægt að styðja vel við bakið á Orator og þarf sérstaklega að huga að því við fjárlagagerðina.

Herra forseti. Málið sem við fjöllum um er mannréttindamál. Það snýst um að fólk sé jafnsett fyrir lögum, að fólk hafi jöfn tækifæri til að leita réttar síns. Það má ekki vera þannig að efnalítið fólk glati réttindum sínum af því að það hafi ekki efni á að leita sér lögfræðiaðstoðar. Ég vona, herra forseti, að Alþingi manni sig upp í að a.m.k. dómsmrh. verði falið að skoða það að koma á slíkri lögfræðiaðstoð, þótt ekki verði gengið lengra en skoða kosti þess og galla og hvað það kostar. Menn munu vonandi setjast yfir þetta brýna verkefni sem allt of lengi hefur dregist að setja í lög. Eins og ég rifjaði upp í framsögu minni var fyrst á árinu 1974 lögð fram tillaga um þetta mál á þingi.

Ég vil ítreka þakkir mínar til hv. þm. Atla Gíslasonar og Ögmundar Jónassonar. Það er full ástæða til að upplýsa að þegar málið var síðast til umræðu var það sent til nefndar í byrjun febrúar. Það var ekki einu sinni látið svo lítið, af þeirri nefnd sem fékk málið til umfjöllunar, að senda það til umsagnar. Þess vegna er ástæða, herra forseti, til að þingmenn fylgist hreinlega með því að ekki sé þannig búið að málum að þau fái ekki einu sinni að fara út til umsagnar, þó ekki væri nema til hægðarauka fyrir þá þingmenn sem flytja viðkomandi mál þannig að þeir geti á næsta þingi endurskoðað málin með tilliti til þeirra umsagna sem fram hafa komið. Þó að mál þingmanna fái ekki mikla umfjöllun á þingi eða í nefndum er það lágmarkskurteisi við þingmenn að málum sé ekki bara stungið ofan í skúffu heldur fái þau eðlilega umfjöllun. Það er afar slæmt, herra forseti, að ekki skuli hægt að skiptast á skoðunum við þá sem sitja á slíkum málum og vilja greinilega ekki afgreiða þau í þingsal. Þess í stað þurfum við ítrekað að ræða slík mál eingöngu í skoðanaskiptum milli þingmanna stjórnarandstöðunnar, sem eru sammála í þessu máli og fyrra málinu sem hv. þm. Atli Gíslason flutti, sem er mjög mikilvægt jafnréttis- og mannréttindamál eins og fram kom í þeirri umræðu.

Það er afar slæmt, virðulegi forseti, að þessi virðulega stofnun, sá virðulegi salur sem við stöndum hér í, sé ekki notaður til skoðanaskipta milli andstæðra sjónarmiða og menn geti svo tekist á með rökum um þau deilumál sem uppi eru hverju sinni. Við verðum að líta á málin sem deilumál þegar stjórnarliðar sitja endalaust á málunum og afgreiða þau ekki út úr nefndum. Árum saman fá þau sömu meðhöndlun í nefndum.

Mér finnst þetta raunar, herra forseti, það alvarlegt að þetta þurfi að ræða milli formanna þingflokka, þ.e. meðhöndlun og meðferð á þingmannamálum. Þetta er ítrekað að koma upp í þingsal.

Ég þakka þær umræður sem málið hefur fengið og vonast til að það fái betri og farsælli umfjöllun og meðferð í hv. allshn. á þessu þingi en á því síðasta.