Stefna ríkisstjórnarinnar varðandi einkavæðingu

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 15:02:37 (5284)

2004-03-15 15:02:37# 130. lþ. 83.1 fundur 404#B stefna ríkisstjórnarinnar varðandi einkavæðingu# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Erindi mitt er að beina spurningu til hæstv. forsrh. um afleiðingar einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar og hvaða áform hún hafi á prjónunum um viðbrögð við því sem úrskeiðis hefur farið og hvort hún hyggist endurskoða fyrri ákvarðanir í ljósi reynslunnar af einkavæðingu síðustu ára. Þá horfi ég ekki síst til fyrirhugaðrar sölu á Landssímanum.

Ég spyr að þessu núna að gefnu tilefni. Bæði hæstv. forsrh. og aðrir ráðherrar, nú síðast hæstv. félmrh. á iðnþingi, hafa lýst áhyggjum yfir þeirri þróun sem orðið hefur í íslensku atvinnulífi og á fjármálamarkaði hvað varðar einokun og eignarhald á fyrirtækjum. Þjóðin þekkir þessa stöðu mætavel. Örfáir aðilar hafa náð undirtökum í efnahagslífinu og hefur það t.d. gerst sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð varaði við þegar ríkisbankarnir voru seldir, að sömu aðilar og fara með völdin í atvinnulífinu hafa nú einnig bankana í sinni eign.

Er eðlilegt, spyr ráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, að ofurvald einokunarfyrirtækjanna í íslensku atvinnulífi sé orðið slíkt að á mörkunum sé að það standist siðferðilega mælikvarða? Þá er spurt hvort eðlilegt sé að viðskiptabankarnir verji mestum kröftum sínum og fjármunum, jafnvel með miklum erlendum lántökum, í að brytja niður fyrirtæki í íslensku viðskiptalífi til hagnaðar fyrir sjálfa sig? Hæstv. félmrh. segist hafa tekið eftir því að starfshættir bankanna hafi breyst, þeir hafi áður verið þjónustustofnanir við heimilin og atvinnulífið en nú væru þeir virkir gerendur á fyrirtækjamarkaði. Þetta hljómar nánast eins og upp úr þingræðum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Á þennan veg hefur hæstv. forsrh. einnig mælt og hefur hann horft til þróunar í heimi fjölmiðla, á fjármálamarkaði og í atvinnulífinu almennt. Þess vegna er spurt: Hefur átt sér stað stefnubreyting hjá ríkisstjórninni varðandi einkavæðingu og sölu á ríkiseignum? Hefur t.d. komið til tals að hætta við sölu á Landssímanum í ljósi þess að hann er líklegur til að lenda inni í einokunarsoginu?