Stefna ríkisstjórnarinnar varðandi einkavæðingu

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 15:08:05 (5287)

2004-03-15 15:08:05# 130. lþ. 83.1 fundur 404#B stefna ríkisstjórnarinnar varðandi einkavæðingu# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég hef kannski misskilið eitthvað. Ég hef ekki orðið var við að eignir okkar væru fluttar til Búlgaríu. Ég veit ekki betur en að íslenskir menn séu að kaupa eignir í Búlgaríu. En þetta hefur kannski eitthvað farið fram hjá mér, það sem hefur verið að gerast í málinu.

Ég veit ekki betur en að um það hafi verið sæmileg sátt í þinginu, fyrir utan vinstri græna, að það sé skynsamlegt að samkeppnisatvinnurekstur sé ekki í eigu ríkisins. Mér skildist að þetta hefðu verið meginsjónarmið og kölluð nútímaleg sjónarmið varðandi rekstrarþætti.

Á hinn bóginn, og það ítreka ég, verður að gera miklar kröfur til stórra aðila á markaði. Ég tek undir það sem hæstv. félmrh. sagði, bankarnir eiga ekki til lengri tíma að vera með hagsmuni í stjórnum stærri fyrirtækja. Við getum viðurkennt að þeir geti gripið inn í slíkt eignarhald tímabundið en ekki með viðvarandi hætti þannig að það er algjör samhljómur hvað þetta varðar í báðum stjórnarflokkunum.