Lækkun smásöluálagningar lyfja

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 15:28:06 (5303)

2004-03-15 15:28:06# 130. lþ. 83.1 fundur 407#B lækkun smásöluálagningar lyfja# (óundirbúin fsp.), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það er einhver misskilningur að tillögurnar séu ekki ígrundaðar. Lyfjaverðsnefnd hefur unnið frá áramótum að þessum málum og hefur fjölgað fundum sínum, fundar nú vikulega, og hefur unnið með aðilum að tillögugerð sinni.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar er enginn endanlegur dómur í þessu efni. Þetta er heildarúttekt á lyfjamarkaðnum og hún er að koma, það er alveg rétt, þessa dagana og mér verður gerð grein fyrir henni innan tíðar, hef reyndar einhverja hugmynd um hvernig hún lítur út og mun biðja um að fá að gera Alþingi grein fyrir henni þegar hún kemur. Við erum með margs konar aðgerðir í lyfjamálum í undirbúningi og erum byrjuð að lækka lyfjakostnað, því við þurfum að gera það. Þetta er einn þátturinn í því.

Ég endurtek að ég hef ekki viljað hafa það sem forgangsmál að hækka sjúklingahlutann.