Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 16:04:45 (5314)

2004-03-15 16:04:45# 130. lþ. 83.16 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[16:04]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir orð hans. Ég tel margt í þeim málum sem hann nefnir og þeim frv. sem hann hefur boðað að hann hyggist flytja allrar athygli vert. Ég hef lagt til við forseta að þeim málum sem ég mæli fyrir verði vísað til hv. félmn. að lokinni umræðunni. Mér finnst full ástæða til og vænti þess að hv. félmn. taki þessi mál til umfjöllunar jafnhliða, því þarna er um að ræða breytingar á lögum sem við getum verið sammála um að í einhverjum tilvikum sé pottur brotinn.

Hér er hins vegar, og ég vek athygli á því, um að ræða breytingu á lögum annars vegar um frjálsan atvinnu- og búseturétt og hins vegar um atvinnuréttindi útlendinga, sem sá er hér stendur mælir fyrir. En hv. þm. Atli Gíslason kom líka inn á annað mál sem mun verða mælt fyrir á Alþingi væntanlega á næstum dögum, sem er frv. til laga um breytingu á lögum um útlendinga sem er á forræði dómsmrh. Eitthvað af þeim atriðum sem hv. þm. tíndi til og vakti athygli á varða einmitt þau lög og ekki mitt að svara fyrir það, eins og ég veit að hv. þm. gerir sér grein fyrir.