Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 15. mars 2004, kl. 16:26:17 (5318)

2004-03-15 16:26:17# 130. lþ. 83.16 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Besti partur Framsfl. er alltaf sögulega þenkjandi og ég get ekki annað en rifjað það upp fyrir hinum unga og efnilega hæstv. félmrh. að hann er í blóðsifjum við fræga baráttukonu innan verkalýðshreyfingarinnar sem alltaf tók upp hanskann fyrir ekkjur, munaðarleysingja og alla þá sem áttu undir högg að sækja. Sú ágæta kona sat líka hér á þingi og eitt af þeim bréfum sem ég á í fórum mínum, sem ég met hvað mest, er einmitt bréf Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur til mín þar sem hún brýndi mig til dáða um leið og hún sagði mér af högum flórgoðans í Steinsmýrarflóðinu, ef ég man rétt, en það er önnur saga.

Ég sé að hæstv. ráðherra rennur blóðið nokkuð til skyldunnar. Hann hefur ekki setið iðjulaus í ráðuneyti sínu hvað þetta mál varðar og ég fagna því að hann hefur staðið við það sem hann sagði í haust, að hann mundi reka á eftir þessu máli. Það er gleðiefni. Ég hvet svo hæstv. ráðherra til að láta ekki sitja við bréfaskriftirnar einar heldur urra með röddu sinni á þessa menn sem hann er að hitta á fundum þar sem þessi mál koma til umræðu.

Ég er honum sammála um það, eins og ég gat um í ræðu minni áðan, að sá hluti kjarasamninga sem að þessu lýtur er mjög til bóta. En það sem við höfum aðeins spurnir af hér á landi er að í krafti þess ferðafrelsis sem við þökkum Schengen séu fyrirtæki farin að iðka það að koma hér inn með hóp af starfsmönnum í stuttan tíma. Viðkomandi sæta engri tilkynningarskyldu. Þau eru látin vinna hér í nokkrar vikur, farið er með þau út og svo koma þau aftur. Hagnaðurinn af því að hafa starfsfólk á svo lágum kjörum er nægilega mikill til þess að þetta borgar sig ríkulega fyrir viðkomandi fyrirtæki og þessi hluti kjarasamninga mun ekki bjarga þessu. Við þurfum lög til að útiloka þetta þannig að menn fái a.m.k. hamar dómsvaldsins í hausinn ef þeir verða uppvísir að þessu.