Norræna ráðherranefndin 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 14:17:17 (5344)

2004-03-16 14:17:17# 130. lþ. 84.9 fundur 579. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2003# skýrsl, umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir skýrslu samstarfsráðherra um störf Norrænu ráðherranefndarinnar árið 2003. Sem endranær var árið viðburðarríkt í norrænu samstarfi. Svíar sem voru í forsæti völdu sér einkunnarorðin ,,Norðurlönd sem heild``. Aðlögun, samræming og samþætting jafnt innan landanna, milli þeirra og í samskiptum Norðurlandanna við grannsvæðin og ESB voru lykilatriðin í formennskuáætlun þeirra.

Árið 2002 birti Norræna ráðherranefndin skýrslu sem sýndi fram á að margvíslegar stjórnsýsluhindranir á norrænum landamærum standa enn í vegi fyrir þeirri innri samræmingu sem sóst hefur verið eftir um árabil á Norðurlöndum. Undir formennsku Svía náðist mikilvægur árangur í að ryðja úr vegi landamærahindrunum á Norðurlöndum en Poul Schlüter, fyrrv. forsætisráðherra Danmerkur, var fenginn til þess að samræma og leiða það starf. Þar með hófst hið svokallaða Schlüter-ferli sem var mjög virkt allt árið og leiddi m.a. til þess að í lok ársins var stofnuð sérstök deild á ráðherranefndarskrifstofunni í Kaupmannahöfn til að vinna gegn landamærahindrunum.

Á árinu tókst að leysa gamalt þrætumál Íslendinga og Svía, þ.e. nafnamálið svokallaða. Er nú unnið að því að finna lausn á þessu vandamáli fyrir þá Íslendinga sem búsettir eru í Danmörku. Danir og Svíar gerðu með sér sérstakan skattasamning sem kemur þeim sem búa á Eyrarsundssvæðinu til góða. Í ágúst var undirritaður nýr og endurskoðaður norrænn samningur um almannatryggingar en með endurskoðuninni var verið að aðlaga samninginn betur að ESB-reglum. Þá er unnið að því að einfalda skráningu fólks við flutninga milli landa með því að koma á beinu sambandi milli norrænu þjóðskránna og flýta þannig til muna fyrir úthlutun kennitalna. Enn standa þó ýmis vandamál eftir óleyst og því er nauðsynlegt að í ár haldi þessi vinna áfram af engu minni krafti.

Með þeirri fjölgun aðildarríkja ESB sem kemur til framkvæmda nú á vormánuðum breytist ásýnd Evrópu og Evrópusamstarfsins marktækt. Ein afleiðing stækkunarinnar er sú að svæðisbundið samstarf aðildarríkjanna innbyrðis og við grannríki Evrópu er eðlilegur og nauðsynlegur þáttur Evrópusamstarfsins. Þessi breyting hefur jákvæð áhrif á norrænt samstarf sem aldrei hefur fallið jafn vel að evrópsku samstarfi og nú. Aldrei hefur heldur verið sterkari vilji hjá norrænum stjórnmálamönnum til að nýta norrænan vettvang til pólitísks samráðs um norræn og alþjóðleg mál.

Hin evrópska vídd samstarfsins endurspeglast einnig í því beina samstarfi sem nú er stefnt að milli Norrænu ráðherranefndarinnar, ESB og annarra svæðisbundinna alþjóðastofnana sem hafa málefni norðlægra slóða á dagskrá. Þannig átti Norræna ráðherranefndin frumkvæði að því að haldnir voru fundir með fulltrúum Norðurskautsráðsins, Eystrasaltsráðsins, Barentsráðsins og ESB um Norðlægu víddina svokölluðu í því skyni að stilla saman krafta samtakanna, auka á hagkvæmni og ná þannig samlegðaráhrifum þar sem hagsmunir fara saman og viðfangsefni eru keimlík eða þau sömu.

Í framkvæmdaáætlun ESB um Norðlægu víddina sem lögð var fram í mars kemur fram að norræna ráðherranefndin sé reiðubúin til samstarfs um aðgerðir á fjölmörgum fagsviðum svo sem í öryggis- og umhverfismálum og aðstoð við að bæta lífskjör á norðurslóðum.

Á undanförnum 12 árum hefur Norræna ráðherranefndin átt þróttmikið samstarf við Eystrasaltsríkin þar sem markmiðið hefur verið að tryggja stöðugleika á svæðinu með því að styðja við lýðræðisþróun og markaðsvæðingu í ríkjunum þremur. Aðgerðir ráðherranefndarinnar til þessa hafa mestmegnis verið fjármagnaðar af norrænum fjárlögum. Kaflaskil verða í þessu samstarfi þegar Eystrasaltsríkin verða fullgildir meðlimir í ESB 1. maí næstkomandi. Meginþungi grannsvæðasamstarfsins færist því á næstu þremur árum yfir til Norðvestur-Rússlands. Líta má á svæðasamstarfið við Norðvestur-Rússland sem hluta af framlagi Norrænu ráðherranefndarinnar til hinnar Norðlægu víddar ESB.

Í samræmi við þessa stefnubreytingu var tekin upp sú meginregla á árinu 2003 að hefja ekki ný samstarfsverkefni við Eystrasaltsríkin án þess að annaðhvort kæmi til aðild Norðvestur-Rússlands að verkefninu eða kostnaðarþátttaka af hálfu Eystrasaltsríkjanna. Á sama tíma er lögð rík áhersla á að styrkja pólitískt samstarf við Eystrasaltsríkin og efla samstarfið við þau á jafnréttisgrundvelli. Það var í þeim anda að Norðurlöndin fimm, sem eigendur Norræna fjárfestingarbankans, buðu Eistlandi, Lettlandi og Litháen aðild að bankanum.

Afkoma Norræna fjárfestingarbankans er góð og er hann dæmi um norræna stofnun sem hefur skilað eigendum sínum, ríkisstjórnum landanna, miklu. Þannig var hagnaður bankans á liðnu ári þó nokkuð hærri en fjárlög Norrænu ráðherranefndarinnar.

Íslendingar tóku við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 1. janúar síðastliðinn og einkenndi undirbúningur fyrir þau tímamót allt árið 2003. Á þingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Ósló í októberlok lögðum við formennskuáætlun okkar fram til kynningar og mælti hæstv. forsrh. fyrir henni á fyrsta degi þingsins. Áætlunin sem unnin var í samstarfi allra ráðuneyta ber yfirskriftina Auðlindir Norðurlanda, lýðræði, menning, náttúra. Í yfirskriftinni felst að Norðurlöndum beri að nýta betur auðlindir sínar sem eru undirstaða velmegunarinnar. Þannig eigi að beina sjónum sérstaklega að mannauðnum, menningarauðnum, lýðræðishefðinni og náttúruauðlindum.

Á þemaráðstefnu Norðurlandaráðs í Reykjavík vorið 2002 var bent á mikilvægi þess að fylgjast vel með lýðræðisþróuninni í okkar heimshluta. Þess vegna lögðum við Íslendingar til í formennskuáætlun okkar að skipuð yrði norræn lýðræðisnefnd með það hlutverk að skoða framtíð lýðræðis í ljósi hnattvæðingar og upplýsingatækni. Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, leiðir starf nefndarinnar fyrir Íslands hönd en aðrir nefndarmenn eru skipaðir af ríkisstjórnum hinna norrænu ríkjanna og heimastjórnum sjálfstjórnarsvæðanna þriggja.

Vinna gegn stjórnsýsluhindrunum verður áfram í forgrunni á formennskuári okkar Íslendinga. Það er mjög áríðandi að við nýtum vel þann byr sem Svíum tókst að fá í seglin vegna þessa máls. Hyggjumst við þess vegna fylgja því eftir af engu minni þunga en þeir gerðu. Poul Schlüter hefur samþykkt að liðsinna okkur í þeim efnum, a.m.k. fram á mitt ár 2004. Ég tel afar mikilvægt að unnið verði gegn landamærahindrunum af fullri einurð á öllum sviðum samstarfsins og legg á það áherslu að við tökum til við þær stjórnsýsluhindranir sem snúa að atvinnulífinu á Norðurlöndum því að sá málaflokkur er ekki síður mikilvægur.

Norrænn starfshópur sem samstarfsráðherrarnir höfðu falið að gera úttekt á stöðu Vestur-Norðurlanda í norrænu samstarfi lagði fram skýrsluna Vestur-Norðurlönd í norrænu samstarfi á vormánuðum 2003. Var hún samþykkt á fundi samstarfsráðherranna í júní sama ár. Skýrslan hefur að geyma margar hugmyndir og beinar tillögur sem eru til þess fallnar að efla samstarf þjóðanna við Norður-Atlantshaf. Þar er jafnframt lagt til að samstarf Vestur-Norðurlanda verði eflt á mörgum mikilvægum sviðum, svo sem varðandi samgöngur, ferðaþjónustu, rannsóknir, umhverfisvernd og fiskveiðistjórn. Einnig er lögð áhersla á að það þjóni heildarhagsmunum Norðurlanda að taka upp nánara samstarf við grannsvæðin við Norður-Atlantshaf og hvatt til að Norræna ráðherranefndin hefjist handa við að móta grannsvæðastefnu í vesturátt. Með því er einkum átt við Atlantshafshéruð Kanada, Írland og Norður-Írland og Skotland ásamt skosku eyjunum. Í skýrslunni er m.a. lagt til að kannað verði hvort grundvöllur sé fyrir því að bjóða grönnum við Norður-Atlantshaf aðild að Lánasjóði Vestur-Norðurlanda, að vestnorræna svæðasamstarfið NORA komi sterkar inn sem samræmingaraðili fyrir samstarf atvinnulífs á svæðinu auk þess sem grannsvæðunum í vestri verði boðin bein aðild að stofnuninni. Einnig er lagt til að norrænu húsin í Reykjavík, Þórshöfn og Nuuk, fái hliðstætt hlutverk að því er varðar menningarsamstarfið við Norður-Atlantshaf.

Þá er einnig lagt til að Norræna ráðherranefndin láti gera víðtæka úttekt á stöðu flug- og skipasamgangna innan vestnorræna svæðisins á milli Vestur-Norðurlanda og annarra ríkja.

Eitt helsta áherslumál okkar Íslendinga í ár þegar við höldum um stjórnartaumana í Norrænu ráðherranefndinni er að fylgja fyrrgreindri skýrslu eftir og koma til framkvæmda eins mörgum af tillögum hennar og kostur er. Við höfum því falið Páli Péturssyni fyrrv. félmrh. að fylgjast með því að tillögur skýrslunnar komi til umfjöllunar á árinu í viðeigandi embættis- og ráðherranefndum. Beinar tillögur í skýrslunni eru ýmist komnar til skoðunar eða framkvæmda. Þannig hefur íslenska samgrn. fyrir hönd norrænu samgönguráðherranna þegar látið hefja umrædda úttekt á samgöngumálum á Vestur-Norðurlöndum og er stefnt að því að kynna niðurstöður á fundi ráðherranna í ágúst næstkomandi.

Hæstv. forseti. Almennt má segja um norrænt samstarf að það sé í senn samfellt og sveigjanlegt. Á flestum sviðum samstarfsins hafa menn komið sér saman um að starfa eftir langtímaáætlunum sem oftast ná yfir nokkurra ára skeið. Stefnumótandi skýrslur og samþykktir skipta einnig miklu máli. Það land sem leiðir samstarfið hverju sinni er að sjálfsögðu bundið af því að fylgja þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið. En kosturinn við norrænt samstarf er að það er líka sveigjanlegt. Með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni fylgja tækifæri til að setja mark sitt á samstarfið, koma með nýjar áherslur, beina því inn á nýjar brautir og bregðast þannig við kalli líðandi stundar. Þetta tækifæri fellur okkur Íslendingum í skaut í ár.

Gagngerar breytingar hafa verið boðaðar á stefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í samstarfinu við grannsvæði Norðurlanda við Eystrasalt og Norðvestur-Rússland. Á sama tíma er meiri hljómgrunnur en oft áður fyrir því að horfa í vesturátt og móta grannsvæðastefnu á Norður-Atlantshafssvæðinu. Þessi áhersla fellur afar vel að stefnu okkar Íslendinga í utanríkismálum og um eflingu menningartengsla ásamt samstarfi og samráði varðandi auðlindanýtingu þjóðanna á svæðinu. Þess vegna er brýnt að við gerum okkar til þess að hún nái að skjóta rótum í norræna samstarfinu.