Norræna ráðherranefndin 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 14:36:37 (5351)

2004-03-16 14:36:37# 130. lþ. 84.9 fundur 579. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2003# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú er það þannig í þessu norræna samstarfi að samstarfsráðherrann mótar í sjálfu sér ekki stefnuna innan hvers ráðherraráðs, innan hvers fagráðs, ef svo má að orði komast. Í þessu tilviki eru það sjávarútvegsráðherrar Norðurlandanna sem móta sína sameiginlegu stefnu um fiskveiðarnar og þá um brottkast og hvort þeir vilji sérstaklega skoða það þannig að samstarfsráðherrann mun ekki taka það mál inn á sitt borð.

Hins vegar er alveg ljóst að í því felast miklir hagsmunir fyrir hin norrænu ríki að eiga gott samstarf um fiskveiðistjórn og um málefni hafsins. Það er vegna þess að þessi ríki sum hver nýta sjávarafurðir og eru mjög háð þeirri nýtingu. Þess vegna er það sameiginlegt hagsmunamál þessara ríkja að upplýsa aðra um stöðuna í Norður-Atlantshafinu, þ.e. um að það sé með hreinustu höfum í heimi t.d. og um að við erum að nýta stofnana hér á sjálfbæran hátt. Þeir stofnar sem við erum að nýta hér eru ekki í mikilli hættu eins og stofnar víðast hvar annars staðar.

Mikill misbrestur hefur verið á því að stofnar hafi verið nýttir á sjálfbæran hátt, t.d. hjá mörgum ESB-ríkjum, og hefur gætt ákveðinnar tilhneigingar til þess að yfirfæra það á Norður-Atlantshafið. Því felast miklir hagsmunir í því fyrir okkur sameiginlega með Norðurlöndum að upplýsa um rétta stöðu fiskveiða okkar og um rétta stöðu varðandi hreinleika hafsins í Norður-Atlantshafi.