Norræna ráðherranefndin 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 14:38:55 (5352)

2004-03-16 14:38:55# 130. lþ. 84.9 fundur 579. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2003# skýrsl, SJS
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Þegar skýrsla samstarfsráðherra kemur hér til umræðu, sú fyrri af tveimur sem við munum ræða í dag og varða hið norræna samstarf --- sú síðari er að sjálfsögðu skýrsla Íslandsdeildar Norðurlandaráðs --- þá eru nokkur atriði sem ég vil koma aðeins inn á og skipta þessu bróðurlega á milli þessara tveggja skýrslna eftir því sem mér sýnast efni standa til. Það er þá það sem lýtur meira að samstarfinu á ráðherravettvangi annars vegar og hins vegar það sem snýr að Norðurlandaráði sjálfu.

Almennt vil ég segja um hið norræna samstarf að ég held að það sé við ágæta heilsu, að það hafi komist nokkuð klakklaust út úr ýmiss konar breytingum og sviptingum sem yfir hafa gengið í stjórnmálum Norðurlanda og Evrópu og þó víðar væri leitað jafnvel á síðustu 10--15 árum. Auðvitað hefur norrænt samstarf ekki farið varhluta af þeim miklu hræringum sem verið hafa í alþjóðastjórnmálum á þessum tíma frekar en annað alþjóðasamstarf. Segja má að fjölgað hafi í fjölskyldunni því að á tímanum frá því um 1990 og fram til dagsins í dag hafa litið dagsins ljós margs konar samtök eða skipulögð samvinna ríkja sem Norðurlöndin eru þátttakendur í eða tengjast eins og Eystrasaltssamvinna, heimskautasamvinna, Barentshafssamvinna o.s.frv. Menn eru kunnugir því, geri ég ráð fyrir, sem leggja sig eftir því að fylgjast með á þeim vettvangi.

Ég held að óhætt sé að segja að norræna samstarfið haldi áfram og eftir sem áður velli sem kjarni í alþjóðasamstarfi okkar og þannig viljum við Íslendingar væntanlega flestir hafa það og að það standi alveg undir nafni sem slíkt. Í gegn hafa gengið talsverðar skipulagsbreytingar sem ástæðulaust er að rifja upp hér og segja má að dálítil tilraunastarfsemi hafi verið í gangi með Norðurlandaráð á árunum frá árunum 1995 og fram um 2000. En menn hafa nú að nýju horfið til baka til hefðbundnara samstarfsforms þar sem um er að ræða fagnefndir. Það fellur betur að samvinnu Norðurlandaráðs annars vegar og norræna ráðherraráðsins hins vegar. Á því leikur lítill vafi. Nefndir Norðurlandaráðs hafa þá á nýjan leik fagráðherra til að leita til og vinna með í einstökum málum. Þess sér þegar stað að það er aukin samvinna á nýjan leik milli ráðherraráðsins og einstakra ráðherra á fagsviðum annars vegar og viðkomandi nefnda Norðurlandaráðs hins vegar.

Sú áhersla sem lögð er í skýrslu samstarfsráðherra á Vestur-Norðurlönd og hið vestnorræna samstarf er að sjálfsögðu eðlileg bæði út frá sjónarhóli og hagsmunum Íslands og eins í ljósi formennskuárs Íslands í hinu norræna samstarfi. Ég held að ástæða sé til að nefna það hér og fagna því að vestnorrænt samstarf hefur komist aftur á landakortið og nýtur núna meiri athygli á nýjan leik sem svæðisbundið samstarf undir hinni norrænu regnhlíf en áður var eða var á tímum mikillar athygli á Eystrasaltsríkjunum og Evrópumálum. Þess sá náttúrlega ekki síst stað í því þegar menn endurskipulögðu í grunninn sjálft hið norræna samstarf til þess að taka mið af veruleikanum í kringum sig, þ.e. bjuggu til Evrópunefnd og nærsvæðanefnd sem fyrst og síðast var hugsuð sem tæki til að vinna með Eystrasaltsríkjunum og þá kannski að einhverju leyti Norðvestur-Rússlandi.

Nú hafa menn sem sagt horfið frá þessu, eins og ég sagði áður. Sömuleiðis þykjumst við merkja það á ýmsan hátt að það sé aukin athygli á vestnorrænu samstarfi á nýjan leik og því fögnum við. Þannig kom út t.d. ágæt skýrsla sem var unnin og samþykkt af samstarfsráðherrum á vordögum fyrir um ári síðan þar sem vestnorrænt samstarf var kortlagt og hugsanleg vandamál og þróunarmöguleikar greindir umtalsvert. Einnig var litið til nærsvæða vestnorrænu landanna, eyþjóðanna og strandþjóðanna við norðan- og norðvestanvert Atlantshafið. Ég hef áður vitnað til þessarar ágætu vinnu og fylgiskýrslu sem var unnin af norrænu byggðaþróunarstofnuninni, Nordregio, og fylgdi nefndarálitinu eða skýrslunni til samstarfsráðherranna. Þar er að mínu mati á ferðinni gagnlegur grunnur til þess að byggja á og á að geta komið að gagni í sambandi við frekari þróun þessara mála, einnig vestnorræna samstarfið sem slíkt, þ.e. samskipti Íslands, Grænlands og Noregs sem eru jú í föstum skorðum.

[14:45]

Það er einn þáttur þeirrar skýrslu sem ég vil sérstaklega gera að umræðuefni og gjarnan spyrja hæstv. samstarfsráðherra út í. Hann varðar úttekt á samgöngumálum, flug- og skipasamgöngum, innan vestnorræna svæðisins. Sú tillaga er ein af tillögum starfshópsins sem ráðherraráðið hefur gert að sinni og ég veit ekki betur en standi til að hefjast handa um á þessu ári. Ég veit að samgrn. fer með það verkefni fyrir Íslands hönd á formennskuári Íslands og ég vil gjarnan spyrja hvað því líði að það verk verði boðið út eða hafist verði handa um það og hvort nægjanlegir fjármunir séu tryggðir til að það geti farið í gang og helst að því verði lokið sem fyrst. Ég er þeirrar skoðunar að það gæti orðið um afar gagnlegt innlegg í vinnu í þessu máli að ræða að fá slíka óháða úttekt sérfræðinga sem geta með gests augum skoðað fyrirkomulagið í flug- og skipasamgöngum innan vestnorræna svæðisins. Ég veit að áhugaaðilar á sviði samgangna og ferðaþjónustu líta til þessarar vinnu með nokkurri eftirvæntingu.

Þar af leiðandi er sömuleiðis eðlilegt að í formennskuáætlun Íslands sé sams konar áhersla lögð á Vestur-Norðurlönd og samstarf þeirra við grannsvæðin, kannski ekki bara í vestri heldur allt um kring, og það er löngu tímabært að menn átti sig á því að Norðurlöndin eiga nágranna í vestri, ekkert síður en í austri.

Sá atburður varð á árinu að það var endanlega ákveðið og staðfest að bjóða Eystrasaltsríkjunum aðild að Norræna fjárfestingarbankanum. Það held ég að sé að mörgu leyti eðlileg og skynsamleg þróun. Stundum hafa komið upp umræður um að bjóða ætti Eystrasaltsríkjunum aðild að sjálfu Norðurlandaráði og hinu skipulega norræna samstarfi sem slíku. Þá væru að sjálfsögðu engin rök til annars en að ráðherrar frá Eystrasaltsríkjunum ættu sams konar aðild að ráðherraráðinu. Ég held að þetta sé vænlegri leið sem hér er verið að feta, að halda áfram að byggja brýr og tengja Eystrasaltsríkin við norrænt samstarf á ýmsum sviðum, t.d. eins og í þessu tilviki að bjóða þeim aðild að Norræna fjárfestingarbankanum áður en farið er að hreyfa við sjálfum hinum pólitíska grundvelli samstarfsins. Ég hef enn sem komið er a.m.k. verið hallur undir þá skoðun að það eigi að viðhalda ákveðnum kjarna norrænu ríkjanna sem verði fyrir þeirra samstarf eingöngu.

Mikil vinna hefur á undanförnum missirum farið í það sem menn kalla landamærahindranir eða hindranir í samskiptum innan Norðurlandanna. Það kom mörgum kannski dálítið á óvart þegar það var kortlagt, skoðað af starfshópum og unnar um það skýrslur við hvers konar ýmsar hindranir væri þrátt fyrir allt að glíma enn þá í innbyrðis samskiptum borgara Norðurlandanna og þess vegna fyrirtækja og aðila á þeim tímum sem menn tala hátíðlega um að ekki bara Norðurlöndin, heldur meira og minna öll Evrópa svo að ekki sé sagt allur heimurinn, séu að renna saman, jafnvel í eitt lítið heimsþorp. Það er kannski dálítið ofmælt þegar betur er að gáð og í ljós kemur að ýmsu leyti alveg hið gagnstæða, meira að segja innbyrðis innan Norðurlandanna er við ýmiss konar hindranir að glíma. Það á t.d. við um, eins og kom fram í skýrslu Ole Nordbaks sem síðan fyrrv. forsætisráðherra Dana, Poul Schlüter, var fenginn til að fylgja eftir, að hvað varðar skattalöggjöf, vandamál sem koma upp þegar menn vinna í einu norrænu landi en greiða skatta í öðru, yfirfærslu félagslegra réttinda innan almannatryggingakerfa og félagssáttmála á Norðurlöndunum, á sviði menntunar hvað varðar viðurkenningu á prófgráðum og ýmislegt í þeim dúr er við ýmsar hindranir að glíma. Þetta hefur t.d. komið upp þegar slík samskipti hafa stóraukist með tilkomu Eyrarsundsbrúarinnar og menn glíma við ýmiss konar vandamál sem tengjast skattlagningu launatekna og atriðum sem koma upp, eins og áður sagði, þegar menn eru í þeirri aðstöðu að vinna í einu landinu og greiða skatta í öðru, jafnvel vinna og vera búsettir í öðru landinu en eiga afganginn af fjölskyldu sinni í hinu o.s.frv. Þarna eru auðvitað ýmis praktísk viðfangsefni sem áfram er við að glíma og þarf að vinna að að ryðja úr vegi til að standa að hindranalausum samskiptum innan Norðurlandanna sem einu atvinnu- og félagsmálasvæði. Sumt af þessu er kannski meira sofandaháttur, að menn hafa ekki verið vel á verði í þessum efnum allra síðustu árin. Það er alveg ljóst að hið norræna samstarf var mjög framsækið og langt á undan samtíð sinni að mörgu leyti þegar ýmiss konar réttindi voru tryggð á öllu svæðinu, þegar Norðurlöndin voru gerð að einum vinnumarkaði, einu vegabréfasvæði o.s.frv. áratugum áður en menn fundu upp það hjól suður í Brussel eða annars staðar í Evrópu. Þess vegna er svolítið neyðarlegt, ef maður má nota það orð, það er á köflum hálfneyðarlegt að standa svo frammi fyrir því að menn hafi sofnað á verðinum síðustu árin og þetta hefur kannski ekki þróast eins hratt og ætla hefði mátt út frá því hve framsækið norrænt samstarf var að þessu leyti á fyrri áratugum.

Í sumum tilvikum snýst þetta fyrst og síðast um það að koma upplýsingum á framfæri, t.d. hvað varðar skattamálin sem eru þarna býsna snúin viðfangs, skatta- og réttindamálin. Það er ekki verið að tala endilega um að menn eigi að leggja á nákvæmlega sömu skatta eða gera Norðurlöndin einsleit í þeim efnum, og áfram verður örugglega einhver munur á félagslöggjöf landanna þótt hann sé kannski ekki ýkja mikill. Það sem málið snýst um er að mönnum séu réttindi sín ljós og aðgengileg á hverjum tíma. Ég leyfi mér að halda því fram að þetta sé alveg sérstakt hagsmunamál fyrir Íslendinga vegna þess að því miður held ég að stuðningur við Íslendinga hvað varðar upplýsingar og aðstoð í tilvikum af þessu tagi sé minni en er annars staðar á Norðurlöndunum, t.d. til muna minni en er í Svíþjóð. Síðan eru Íslendingar hreyfanlegir í miklu meira mæli hlutfallslega en gildir annars staðar á Norðurlöndunum og sækja nám eða tímabundið vinnu eða annað til Norðurlandanna einhvern tíma á ævinni. Það er stórt og mikið hagsmunamál fyrir Íslendinga að í þessum hlutum sé unnið.

Á vettvangi efh.- og viðskn. hefur verið í undirbúningi tillaga um að setja á laggirnar einhvers konar norrænar skattaupplýsingamiðstöðvar eða skatteiningar, ekki beinlínis skattyfirvald eða skattaskrifstofur heldur einhvers konar skatteiningar sem hefðu að sjálfsögðu ekki álagningarvald eða annað í þeim dúr sem er í höndum einstakra landa en þessar skrifstofur gætu gert meira en bara að veita upplýsingar. Þær gætu greitt úr málum og gefið út einhvers konar álit um hvaða rétt menn hefðu og hvernig ætti að greiða úr ágreiningsmálum sem upp kæmu. Þær yrðu til stuðnings og aðstoðar þeim sem lenda í jaðartilvikum af ýmsu tagi og gætu átt það á hættu að óbreyttu að þeirra mál yrði afvelta og flæktist á milli skattyfirvalda í löndunum o.s.frv. Því miður eru að þessu talsverð brögð og það á líka við um ýmis félagsleg réttindi sem menn hafa haldið að þeir gengju að vísum þó að þeir flyttu sig innbyrðis milli Norðurlandanna en það er ekki alltaf tilfellið. Menn hafa mátt standa í alls konar barningi við að fá jafnsjálfsagða hluti og barnabætur greiddar þegar þeir fluttu sig milli landa.

Þetta voru nokkur af þeim atriðum, virðulegi forseti, sem ég ætlaði að koma inn á og varða beinlínis það sem hér er fjallað um í skýrslu norrænu samstarfsráðherranna.