Norræna ráðherranefndin 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 15:11:02 (5356)

2004-03-16 15:11:02# 130. lþ. 84.9 fundur 579. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2003# skýrsl, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[15:11]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil kannski ekki taka svo djúpt í árinni að segja að ég sé einhver sérstakur sérfræðingur í umhverfismálum þó að ég hafi starfað á þeim vettvangi um tíma. En hér er hv. þm. sérstaklega að ræða um nýtingu sjávarafurða og hvað við getum lært af Færeyingum og hvort það sé ekki áhugavert.

Mín skoðun er sú og það blasir auðvitað við öllum að umræðan varðandi nýtingu sjávarafurða á sér stað meira og minna í samfélagi okkar og hefur átt sér stað um árabil og það er margoft búið ræða um þær aðferðir sem Færeyingar nota og sitt sýnist hverjum. Það er því mikill áhugi á þessum málum almennt í samfélaginu. Bæði á vettvangi Alþingis og úti í samfélaginu eru þessi mál til sífelldrar umræðu. Ég sé því kannski ekki að það sé eitthvað nýtt sem á sér stað í Færeyjum núna sem kallar á einhver sérstök viðbrögð, a.m.k. af minni hálfu. En ég er alveg sannfærð um að auðvitað eigum við Íslendingar að skoða það sem nágrannalönd okkar eru að gera og við höfum verið að gera það, og það má læra af sumu en öðru ekki. Ég styð alla vega þá stefnu sem við höfum haft í okkar sjávarútvegi en fagsvið okkar í umhvrn. lýtur auðvitað miklu meira að mengunarmálum hafsins, loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á hafið o.s.frv. en að beinni nýtingu sjávarafurða. Það fellur undir sjútvrn.