Norræna ráðherranefndin 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 15:12:57 (5357)

2004-03-16 15:12:57# 130. lþ. 84.9 fundur 579. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2003# skýrsl, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. umhvrh. styður þá stefnu sem sýnt hefur verið fram á, m.a. í skýrslum Hafrannsóknastofnunar, að er ekki góð fyrir stofnana. Þeir eru helmingi lakari núna en fyrir daga þessarar fiskveiðistjórnar. Mér finnst þess vegna ekki óeðlilegt að menn eigi að skoða það, hvort sem menn eru ráðherrar eða hvaða störfum þeir gegna, ef þeir sjá árangur annars staðar. Auðvitað eiga menn að líta til þess með opnum huga og taka jákvætt í svona ábendingar og sérstaklega þegar um er að ræða samstarfsráðherra Norðurlandanna, að líta til árangurs annarra þjóða og hvar menn geta náð árangri. Ég er sannfærður um að við getum náð miklum árangri af því að líta til Færeyinga. Ég tala nú ekki um hæstv. umhvrh. sem er búin að kynna sér slíka hluti, það kom hér ítrekað fram, um verndun hafsins, verndun villtra stofna og veiðar. Ég teldi það mjög af hinu góða ef hún liti með opnum huga til þess hvernig Færeyingar stjórna sínum veiðum, hvernig þeim tekst að vernda sína stofna, hvers vegna þeir ná árangri en við ekki. Það kemur fram í umræddri skýrslu sem við erum að ræða hér að við eigum einmitt að líta til umhverfismála og við eigum að líta til stjórnar á fiskveiðum í samstarfi okkar, og ég tel að hæstv. umhvrh. ætti að leggja sérstaka áherslu á þetta vegna þess hve fiskveiðar eru mikilvægar fyrir íslenska þjóð. Og ef við getum gert betur er þá ekki rétt að líta til þeirra þjóða sem hafa gert betur? Mér finnst það bara eðlilegt.