Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 15:17:02 (5359)

2004-03-16 15:17:02# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, JBjart
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Jónína Bjartmarz:

Frú forseti. Ég kynni, sem formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs, skýrslu Íslandsdeildarinnar um norrænt samstarf árið 2003. Að öðru leyti vil ég vísa til skýrslunnar í heild, á þskj. 1017, sem er nokkuð ítarleg umfjöllun um störf Íslandsdeildarinnar. Í þeirri skýrslu er fjallað um störfin, starfsemi nefnda Norðurlandaráðsins, fundi ráðsins, sameiginlega fundi með Eystrasaltsráðinu og Norðurlandaráðsþing. Í þeirri skýrslu er jafnframt fjallað um skipan ráðsins og fyrirkomulag á starfsemi og samstarfi ráðsins og ráðherranefndarinnar. En eins og fram kom áðan í umræðunni milli hæstv. samstarfsráðherra og hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur er aðalsnertiflötur samstarfsins í gegnum Norðurlandaráð sem með samþykktum tilmælum hefur frumkvæði að málum sem ráðherrarnir taka upp og framkvæma. Jafnframt leggur ráðherranefndin framkvæmdaáætlanir sínar fyrir Norðurlandaráð til umsagnar áður en þeim áætlunum er hrint í framkvæmd. Flokkahóparnir fjórir sem starfa innan Norðurlandaráðs móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.

Í upphafi ársins 2003 skipuðu Íslandsdeildina: Ísólfur Gylfi Pálmason, Sigríður Jóhannesdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Drífa Hjartardóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Í kjölfar síðustu alþingiskosninga var kosin ný Íslandsdeild og hana skipuðu hv. þm. Drífa Hjartardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Sigríður Anna Þórðardóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Steingrímur J. Sigfússon og Sigurður Kári Kristjánsson auk þeirrar sem hér stendur. Þessi skipan hélst út árið. Stígur Stefánsson alþjóðaritari gegndi starfi ritara Íslandsdeildar á starfsárinu 2003 sem hér er til umræðu.

Íslandsdeild Norðurlandaráðs kom saman til fundar sjö sinnum á árinu. Að venju var þátttaka í fundum, þemaráðstefnu og þingi Norðurlandaráðs undirbúin en þar að auki voru fjöldamörg mál á dagskrá. Töluvert var rætt um eftirfylgni við tilmæli Norðurlandaráðs en við breytingarnar á skipulagi ráðsins sem tóku gildi 1. janúar 2002 var lögð áhersla á nánari tengsl við þing ríkjanna og hlutverk landsdeilda við að fylgja tilmælum Norðurlandaráðs eftir heima í héraði. Að loknu Norðurlandaráðsþingi í byrjun nóvember var ákveðið að senda tilmæli Norðurlandaráðs til viðkomandi fastanefnda Alþingis. Hugmyndin að baki þessari ráðstöfun er fyrst og fremst sú að fastanefndirnar fái tilmæli ráðsins til upplýsingar og geti, eftir því sem þær kjósa, fylgt þeim eftir í löggjafarstarfi.

Íslandsdeildin hélt einn fund með Siv Friðleifsdóttur, samstarfsráðherra Norðurlanda, í aðdraganda 55. Norðurlandaráðsþings og var þingið sjálft, formennska Íslands og áherslur Norðurlandaráðs helstu umræðuefnin.

Íslandsdeildin hélt fund með nokkrum stjórnarmönnum og starfsmönnum Norræna félagsins um starfsemi félagsins, helstu verkefni og möguleika á samstarfi Íslandsdeildar og Norræna félagsins, m.a. varðandi hugsanlega norræna daga sem haldnir yrðu í tengslum við Norðurlandaráðsþing í Reykjavík árið 2005.

Frú forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um starf nefnda Norðurlandaráðs. Málefnastarfið fer að mestu leyti fram í fimm málefnanefndum auk forsætisnefndar. Í upphafi starfsársins 2003 sátu Ísólfur Gylfi Pálmason, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigríður Anna Þórðardóttir í forsætisnefnd. Sigríður Jóhannesdóttir sat í menningar- og menntamálanefnd og Drífa Hjartardóttir í velferðarnefnd. Steingrímur J. Sigfússon átti sæti í efh.- og viðskn. og Arnbjörg Sveinsdóttir í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.

Að loknum alþingiskosningum breyttist nefndaskipan þannig að sú sem hér stendur tók við af Ísólfi Gylfa Pálmasyni í forsætisnefnd. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir tók við af Sigríði Jóhannesdóttur í menningar- og menntamálanefnd og Sigurður Kári Kristjánsson tók við af Arnbjörgu Sveinsdóttur í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd. Íslandsdeildin átti ekki mann í einni nefnd ráðsins, þ.e. borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs.

Ég ætla að láta við það sitja í stuttri framsögu að hafa nokkur orð um starfið í forsætisnefnd. Varðandi störf annarra nefnda vísa ég til skýrslunnar auk þess sem aðrir meðlimir Íslandsdeildarinnar kunna að kveðja sér hljóðs á eftir og fjalla um starf hinna nefndanna.

Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem kosnir eru af þingi Norðurlandaráðs. Norski þingmaðurinn Inge Lønning gegndi embætti forseta Norðurlandaráðs á árinu og er hann úr flokkahópi hægri manna. Forsætisnefnd annast víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni, og hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við þing Norðurlandaráðs.

Eftir breytingar á nefndakerfi Norðurlandaráðs sem tóku gildi árið 2002 er aukin áhersla lögð á utanríkis- og öryggismál í starfi forsætisnefndar, þar á meðal friðargæslu og málefni hinnar norðlægu víddar ESB. Þá sér forsætisnefnd um tengsl við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og á í samstarfi við ESB, ÖSE, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri alþjóðastofnanir.

Af helstu málum sem forsætisnefnd fjallaði um fyrir utan hefðbundin störf má nefna landamæralaus Norðurlönd. Það málefni var í í brennidepli á starfsárinu og Norræna ráðherranefndin, eins og mig minnir að komið hafi fram í máli hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandanna, réð Poul Schlüter, fyrrv. forsætisráðherra Dana, til að hafa yfirumsjón með starfi til afnáms landamærahindrana. Það starf var eins og komið hefur fram í umræðunni fyrr í dag byggt á svokallaðri Norrback-rannsókn og skýrslu þar um. Nefndir Norðurlandaráðs unnu líka samtímis að tillögum um hvernig málefni landamæralausra Norðurlanda snertu málefnasvið þeirra. Til að samræma aðgerðir og tillöguvinnslu nefnda Norðurlandaráðs á þessu sviði kom forsætisnefndin á fót sérstökum stýrihóp innan ráðsins.

Annað mál sem er ofarlega á dagskrá forsætisnefndar var og er framtíðarstefnumótun Norðurlandaráðs varðandi stöðu og hlutverk Norðurlandanna í Evrópu eftir stækkun ESB. Stækkunin eykur þörfina á því að Norðurlöndin hafi samráð um hagsmunamál sín í Evrópusamstarfinu. Það á jafnt við um norrænu ESB-löndin og EES-löndin Ísland og Noreg. Enn fremur var litið til þess að Norðurlönd gætu átt samstarf við Eystrasaltsríkin þegar þau eru komin inn í ESB um að koma sameiginlegum hagsmunamálum fram. Umræðan um stöðu og áhrif Norðurlanda í Evrópu var nátengd umræðunni um afnám landamærahindrana því að með því að leysa þau vandamál mundu Norðurlönd styrkja sig í sessi og gætu um leið orðið fyrirmynd að afnámi landamærahindrana innan ESB.

Af öðrum málum sem komu til kasta forsætisnefndar má nefna Vestur-Norðurlönd og norðurskautsmál. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir var áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs í þingmannanefnd um norðurskautsmál og skilaði skýrslum og tillögum til forsætisnefndar um aukinn stuðning við þann málaflokk.

Norðurlandaráð er í miklu samstarfi við Eystrasaltsríkin. En þjóðþing ríkjanna þriggja stofnuðu á sínum tíma í Eystrasaltsþingið að fyrirmynd Norðurlandaráðs. Komist hefur hefð á að halda sameiginlega fundi annað hvort ár til skiptis á Norðurlöndunum eða í Eystrasaltsríkjunum. Norðurlandaráð og Eystrasaltsþingið héldu fjórða sameiginlega fund sinn í Lundi í Svíþjóð 27.--29. apríl síðastliðinn. Þessir fundir eru afar mikilvægur samráðsvettvangur þar sem þingmenn ríkjanna og ráðherrar koma saman og taka fyrir þau pólitísku mál sem eru í brennidepli hverju sinni. Meginþema fundarins í Lundi voru barátta gegn skipulagðri glæpastarfsemi, friðargæsla og öryggismál og byggðastefna ESB. Nánar má lesa um þennan fund og lokayfirlýsingu fundarins, frú forseti, í skýrslu Íslandsdeildarinnar.

Stærsti viðburður starfsársins var að sjálfsögðu sem endranær þing Norðurlandaráðs. Það var haldið í Ósló dagana 27.--29. október síðastliðinn. Ég get ekki látið hjá líða að geta þess að Íslandsdeildin, sem er sannarlega minnsta landsdeildin innan Norðurlandaráðsins með aðeins sjö fulltrúa, var mjög virk á því þingi og lét ekki minna að sér kveða í umræðum en sumar stóru landsdeildirnar með 20 þingmenn. Ég tel það vera mjög gott og eiga hv. þm. Íslandsdeildarinnar hrós skilið fyrir virkni sína á þeim vettvangi.

Af stórum málum þingsins má nefna afnám landamærahindrana sem ég kom aðeins inn á áðan í umfjöllun um störf forsætisnefndar. Önnur stór þemu voru staða Vestur-Norðurlanda í norrænu samstarfi, sem er sérstakt áhugamál okkar Íslendinga. Þar áttu þingmenn mjög góðar viðræður um samstarfsráðherrana um aðgerðir á því sviði. Aðgerðir gegn vændi og mansali voru til umræðu á þinginu og nokkuð tekist á um hvort Norðurlöndin ættu samleið í baráttunni gegn vændi með hinni sænsku leið, sem gengur úr á að gera vændiskaup refsiverð. Þá var rætt ítarlega um vinnumarkaðssamstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna eftir stækkun ESB, um umhverfismál og nýtingu náttúruauðlinda auk hefðbundinnar utanríkismálaumræðu.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um Norðurlandaráðsþingið. Ég vísa enn og aftur til skýrslu Íslandsdeildarinnar varðandi nánari upplýsingar um það. Að síðustu vil ég leggja áherslu á að gagnstætt því sem margir ætla er hið norræna samstarf í sífelldri þróun og sífelldri endurnýjun. Umhverfi okkar hefur breyst mikið á liðnum árum og helstu viðfangsefni Norðurlandaráðs eru allt önnur en fyrir 10--15 árum. Fyrir fall Berlínarmúrsins var norrænt samstarf t.d. nær einungis innan á við en teygðist síður út á við. Norðurlöndin brugðust hins vegar strax við og studdu lýðræðislega og félagslega uppbyggingu í Eystrasaltsríkjunum. Þau lögðu mikið í það starf og hafa gert allar götur síðan. En síðan hefur margt breyst og Eystrasaltslöndin verða meðlimir í ESB eftir nokkrar vikur. Ég er þeirrar skoðunar að sú ímynd Norðurlandaráðs sem fjölmiðlar draga upp hafi ekki fylgt þessum breytingum eftir og allt of margir tengi norrænt samstarf einungis við menningarsamskipti og vinabæjamót. Þetta segi ég með fullri virðingu fyrir slíkum samskiptum. Ég tel að menn viti ekki nógu mikið um stöðu ráðsins sem öflugs samstarfsvettvangs á utanríkismálasviðinu.

Fyrir Íslendinga tel ég norrænt samstarf einkar mikilvægt sem farveg í utanríkismálum. Norðurlöndin eru okkar nánustu bandamenn í alþjóðamálum og við leitum jafnan fyrst til þeirra eftir stuðningi, til þessara bræðraþjóða, þegar mikilvæg hagsmunamál okkar Íslands ber upp á vettvangi alþjóðasamfélagsins. Gleggsta dæmið um þetta eru Evrópumálin. Ég greindi áðan frá stefnumótunarvinnu á vegum forsætisnefndar ráðsins um stöðu norræns samstarfs í Evrópu eftir stækkun ESB. Það er ljóst að Ísland nýtur góðs af norrænu samstarfi í Evrópumálum enda er þar vettvangur til viðræðna og og skoðanaskipta við þau ríki í ESB sem tengjast okkur nánustum böndum. Þar getum við mælt fyrir áherslum okkar í Evrópumálum og njótum góðs skilnings á íslenskum aðstæðum og sérstöðu. Norðurlandasamstarfið mun að mínu mati eftir sem áður verða okkar mikilvægasti pólitíski samráðsvettvangur í Evrópumálum. Það verður jafnframt brú okkar til álfunnar, hvernig sem við kjósum að haga tengslum okkar við álfuna að öðru leyti.

Mig langar, frú forseti, að ljúka máli mínu með því að minna á að Ísland mun eiga forseta Norðurlandaráðs á næsta ári. Ég er viss um að Íslandsdeildin mun þá veita Norðurlandaráði mjög öfluga forustu.