Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 15:30:34 (5360)

2004-03-16 15:30:34# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, DrH
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[15:30]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil koma inn í umræðuna um norrænt samstarf og greina stuttlega frá starfi velferðarnefndar sem ég hef átt sæti í síðastliðin ár.

Nefndin sinnir velferðar- og tryggingamálum, félagsþjónustu og heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, fjölskyldumálum, börnum og unglingum og baráttu gegn misnotkun vímuefna. Landamærahindranir og afnám þeirra hafa verið nefnd fyrr í umræðunni, en umfjöllun um þau mál voru ofarlega á baugi hjá velferðarnefnd. Fjallaði nefndin einkanlega um vandamál á sviði félags- og heilbrigðismála við flutning á milli Norðurlanda. Vann nefndin m.a. tillögu um að einfalda og samræma skattlagningu á lífeyrisgreiðslum yfir landamæri. Þá gerði nefndin tillögu um að ráðherranefndin beitti sér fyrir einföldun og samræmingu á reglum um örorkubætur á Norðurlöndum.

Virðulegur forseti. Á sviði heilbrigðismála fjallaði nefndin um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn sykursýki og norrænar rannsóknir á því sviði. Þá var sérstök áhersla lögð á vandamál samfara misnotkun áfengis og vímuefna á starfsárinu og vann nefndin tillögu um aðgerðir til að hamla gegn slíkri misnotkun. Kjarni tillögunnar voru tilmæli til norrænu ráðherranefndarinnar um að vinna með Eystrasaltsríkjunum að strangari og skilvirkari stefnu í Evrópu í þessum málaflokki, tryggja meðferðarúrræði fyrir vímuefnaneytendur og vinna að því að minnka neyslu áfengis með verðlagsstefnu og takmörkunum á aðgengi að því og takmörkunum á möguleikum framleiðenda til markaðssetningar.

Virðulegi forseti. Velferðarnefnd kom á fót vinnuhópi um málefni barna og ungmenna árið 2002 og starfaði hann áfram árið 2003. Nánar tiltekið á hópurinn að fylgjast með stöðu barna og ungmenna á Norðurlöndunum, í Eystrasaltslöndunum og í Norðvestur-Rússlandi og koma með tillögur að því hvernig Norðurlandaráð getur unnið að því að ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verði virt og virkt í Eystrasaltslöndunum og Norðvestur-Rússlandi. Í þessu skyni var sumarferð velferðarnefndar farin til Viborgar í Rússlandi þar sem nefndin skoðaði m.a. skýli og neyðarmóttöku fyrri götubörn, barnaheimili, barnaspítala og sumarbúðir fyrir börn og ungmenni, auk þess sem nefndin átti fund með fulltrúum hjálparsamtaka sem beita sér fyrir málefnum barna. Ég tók þátt í þessari kynningarferð og verð að segja að það tók á að sjá hversu hrikalegar aðstæður sum börn í nágrannalöndum okkar búa við.

Virðulegi forseti. Þetta var aðeins stutt samantekt á starfi velferðarnefndar Norðurlandaráðs á síðasta ári sem ég vildi koma að til að undirstrika það góða starf sem á sér stað á þessu sviði og tek heilshugar undir orð hv. formanns Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.