Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:29:32 (5374)

2004-03-16 16:29:32# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:29]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka fulltrúum úr Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir að hafa flutt hér mjög áhugaverðar ræður þar sem þeir hafa gert grein fyrir starfseminni á liðnu ári. Ég sagði í fyrri ræðu minni í dag að þetta væri áhugamál hjá mér og einnig talsvert hjá mínum flokki. Við teljum að starfið innan Norðurlandaráðs sé mjög mikilvægt fyrir okkur Íslendinga, ekki síst vegna þess að við erum utan Evrópusambandsins og þarna eigum við marga af okkar bestu vinum sem við getum ávallt stólað á í neyð og þegar illa árar hjá okkur og þeir vonandi að sama skapi á okkur.

Enn og aftur, bestu þakkir fyrir afskaplega góða og vandaða yfirferð yfir skýrsluna og um starfsemina.

Ég vil aðeins minnast örfáum orðum á hluti sem komu fram áðan. Það var talað um að fólk hefði áhyggjur af því að unga fólkið á Íslandi væri að missa áhugann á samstarfi innan Norðurlanda. Þetta er eflaust rétt og eflaust er tungumálaþátturinn stór þáttur í því. Við Íslendingar höfum kannski gert mistök í gegnum árin, ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það væri ekki rétt að leggja þessa ofuráherslu á að kenna börnum dönsku, einfaldlega vegna þess að það er svo erfitt fyrir okkur Íslendinga að bera fram dönsku, munnleg danska er mjög erfið fyrir mjög marga. Ég man það greinilega sjálfur þegar ég var í barnaskóla og framhaldsskóla að það versta sem maður gat lent í var að lenda í munnlegu prófi í dönsku, þó reyndar sé það þannig að ef maður lærir eitt Norðurlandatungumál, t.d. norsku, dönsku eða sænsku nokkuð þokkalega er maður mjög fljótur að grípa hin einnig. En þarna held ég að við höfum kannski gert mistök og svo þegar blessuð Andrésblöðin hættu að koma á dönsku var það náttúrlega stórkostlegt menningarlegt áfall fyrir Íslendinga, sem við erum enn þá ekki fyllilega búin að jafna okkur á og gerum kannski aldrei.

Það þyrfti að auka samskipti hvað varðar menntun á milli Íslands og Norðurlandanna. Við ættum að reyna að taka umræðu um það og reyna að íhuga hvernig við getum reynt að bæta úr þessu, því eins og ég sagði áðan er Norðurlandasamstarfið afskaplega mikilvægt og við höfum svo sannarlega mjög mikið að sækja til þessara landa. Við höfum sótt mikið til þeirra í gegnum aldirnar og munum gera það áfram í framtíðinni og því megum alls ekki gleyma.

Ég vil aðeins segja örfá orð um það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á þar sem hann nefndi að það hefðu orðið einhver átök um þætti varðandi sjálfstæðisbaráttu Færeyinga á síðasta Norðurlandaráðsþingi sem var haldið í Ósló, 55. þing, í lok október. Minn flokkur, Frjálsl., hefur lýst því yfir að við styðjum viðleitni Færeyinga til að vera teknir fullgildir, eða að þeir fái sjálfstæða aðild að Norðurlandaráði. Ég held að það væri fyllilega athugandi að kanna hvort ekki væri hægt að koma til móts við þetta með því að breyta Helsinki-sáttmálanum frá 1962, sem er grunnsamningur norræna samstarfsins, þannig að þjóðir eins og Færeyingar geti öðlast fulla aðild, því ég held að það mundi bara, ef eitthvað væri, styrkja Norðurlandaráð og starfið innan Norðurlandaráðs og vinir okkar í Færeyjum hafa örugglega margt til málanna að leggja.

Verið er að leggja meiri áherslu á samvinnu Vestur-Norðurlandanna og við munum vonandi ræða síðar í dag starfsemi Vestnorræna ráðsins, þar sem ég sem betur fer og mér til mikillar ánægju er einmitt einn af fulltrúum Íslands og hef lært mikið á því og orðið klókari og finnst það mjög gagnlegt. Í Vestur-Norðurlandasamstarfinu hefur einmitt verið talað um það, og ég sé í skýrslunni að hv. þm. Sigríður A. Þórðardóttir tók á síðasta Norðurlandaþinginu undir mikilvægi þess, að ráðherranefndin beindi sjónum sínum að Vestur-Norðurlöndunum og að lögð verði áhersla á samvinnu um umhverfi hafsins og nýtingu auðlinda þess.

Ég hjó líka eftir því áðan í skýrslunni sem við ræddum um norrænu ráðherranefndina að þar er líka að finna sömu áherslu. Við Íslendingar, tel ég, höfum greinilegt sóknarfæri í þessum málaflokki, sem gæti gagnast okkur mjög mikið í framtíðinni ef við höldum rétt á spilunum, því það er alveg ljóst að Norðurlandaráð, ef því er beitt á réttan hátt og starfinu innan Norðurlandaráðs er beitt á réttan hátt, er hægt að fá mikið út úr því fyrir okkur Íslendinga. Það er alls ekki rétt að þetta sé bara einhver svokölluð, ég leyfi mér að segja, kjaftasamkunda sem skili litlu, ég held að það sé fullljóst af þessum skýrslum sem við höfum rætt hér það sem af er degi að samstarfið er eitthvað sem við eigum að leggja góða og mikla rækt við.