Norrænt samstarf 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 16:37:34 (5376)

2004-03-16 16:37:34# 130. lþ. 84.10 fundur 688. mál: #A norrænt samstarf 2003# skýrsl, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[16:37]

Sigurjón Þórðarson:

Frú forseti. Ég vil byrja mál mitt á að þakka fyrir ágæta skýrslu og umræðu um norrænt samstarf 2003, skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.

Það sem ég ætla að gera að umtalsefni er áhugavert starf velferðarnefndar. Það hefði verið ákaflega fróðlegt að fá nánari umfjöllun um tillögurnar um að einfalda og samræma skattlagningu á lífeyrisgreiðslum yfir landamæri, ef það væru nokkur tök á því. Einnig um tillögur um að nefndin beitti sér fyrir einföldun og samræmingu á reglum um örorkubætur á Norðurlöndum.

Svo eru aðrar tillögur sem mér finnst vera nauðsyn að ræða hér, en það eru tillögur um aðgerðir gegn misnotkun áfengis og vímuefna. Kjarni tillögunnar voru tilmæli til norrænu ráðherranefndarinnar að vinna með Eystrasaltsríkjunum að strangari og skilvirkari stefnu í Evrópu í þessum málaflokki, tryggja meðferðarúrræði fyrir vímuefnaneytendur og vinna að því að minnka meðalneyslu áfengis með verðlagsstefnu, og það virðist vera kjarninn í tillögunum að væntanlega hækka verð á áfengi.

En þróunin hefur verið önnur ef marka má fréttaflutning. Það hafa borist fréttir af því að Danir séu að lækka verð á áfengi vegna þess að þeir eru að sporna við að Danir fari yfir til Þýskalands að kaupa veigarnar. Síðan hafa hin Norðurlöndin jafnvel séð sig knúin til að elta verðlækkunina svo að menn hópist ekki til Danmerkur til að kaupa áfengi. Það væri fróðlegt að fá að heyra nánar um tilmælin og hvernig menn sjá framkvæmdina á þeim.

Einnig væri fróðlegt að heyra t.d. frá fulltrúum Sjálfstfl. hvort þeir væru tilbúnir til að skrifa undir tilmælin, að takmarka aðgengi að vörunni. Það hafa verið raddir í stjórnmálum einmitt um að koma áfengi sem víðast í verslanir og mun jafnvel verða til umræðu á þinginu. Það væri fróðlegt að fá að heyra nánar um hvernig menn hugsa sér að ná árangri á þessu sviði.

Að lokum vil ég bara ítreka þakklæti fyrir ágæta skýrslu.