Fríverslunarsamtök Evrópu 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 17:00:02 (5380)

2004-03-16 17:00:02# 130. lþ. 84.12 fundur 586. mál: #A Fríverslunarsamtök Evrópu 2003# skýrsl, GunnB
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[17:00]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hlý orð í minn garð varðandi samstarf í EFTA-nefndinni. Það hefur verið afskaplega gott og nefndin ævinlega komið fram sem einn maður fyrir Íslands hönd sem er lykilatriði eins og hv. þm. nefndi í ræðu sinni, virðulegi forseti.

Okkur þingmönnum í nefndinni hefur oft þótt ganga hægt í þessum fríverslunarsamningum eins og kom fram í ræðu hv. þm. Björgvins Sigurðssonar. Þó liggur hér fyrir þinginu eitt mál til staðfestingar, fríverslunarsamningur við Chile, sem var skrifað undir í fyrra í Kristiansand í Noregi.

Varðandi Kanada, af því að spurt var um það, höfum við í tvígang spurt um það mál á ráðherrafundum EFTA þar sem EFTA-þingmannanefndin og ráðherrarnir hafa hist. Tiltölulega fátt hefur orðið um svör nema það liggur alltaf fyrir að það er ágreiningur varðandi skipasmíðar og varahluti til slíkra hluta. Íslenska þingnefndin hefur borið fram hvassar fyrirspurnir til framkvæmdastjórnar EFTA-fríverslunarráðsins og ekki fengið nógu skýr svör. Á síðasta fundi bauðst ég fyrir hönd nefndarinnar til að við tækjum að okkur forustuhlutverk til að reyna að ná sambandi við Kanada um þessi mál, sem við höfum og gert. En þar er, eins og kunnugt er, nýbúið að skipta um ríkisstjórn og nýbúið að skipta um allt þannig að þar er mjög erfitt að fá fast land undir fætur. Við eigum samt von á svari í næstu viku um hvort þeir séu tilbúnir til að hitta hluta þingmannanefndar EFTA til viðræðu um þessi mál til að ýta þeim á flot. Samningar við Kanada voru nánast á lokastigi og gífurlegur styrkur, eins og fram hefur komið, ef það næðist.

Það liggur fyrir að það er búið að landa fríverslunarsamningi við Líbanon. Það liggur fyrir líka að það munar mjög litlu að hægt sé að landa fríverslunarsamningi við Egyptaland. Þar stendur einungis á kartöflum sem Norðmenn vilja helst ekki flytja inn til Noregs þannig að, virðulegur forseti, ýmislegt kemur upp í þessum málum milli þjóða. Norðmennirnir ætluðu, held ég, að reyna að sansa það að hægt yrði að ná þeim samningi saman þrátt fyrir kartöflurnar. Það væru mjög litlar líkur á að það væri mikill vilji til að flytja egypskar kartöflur inn til Noregs þannig að menn gætu haft fría verslun á slíkri vöru.

Síðan eru samningar við Túnis mjög langt komnir og eftir því sem framkvæmdastjóri EFTA tjáði þingmannanefndinni gæti slíkt legið fyrir á þessu ári og í síðasta lagi á því næsta.

Fyrir tæplega tveimur árum spurðu Bandaríkjamenn starfsmenn EFTA hvort fríverslunarviðræður gætu farið fram milli Bandaríkjanna og EFTA. Miðað við alla samninga sem þá voru í gangi treystu menn sér ekki til að fara í þá af alvöru en Íslandsdeildin hefur verið ýta á það við framkvæmdastjórnina að hún komi þessum málum í farveg. Bandaríkjamenn höfðu frumkvæði að þessu. Ég tala nú ekki um, virðulegi forseti, ef við næðum bæði Kanada og svo Bandaríkjunum inn, það mundi styrkja stöðu okkar verulega, sérstaklega í samstarfi við Evrópubandalagið. Þess má geta að EFTA-ríkin eru fyrir stækkun 7% af markaði Evrópubandalagsins.

Síðan hafa Rússar gefið merki um að þeir séu jafnvel til viðræðu um fríverslun. Þetta verður allt að koma í réttri röð. Okkur þykir það hérna á Íslandi að þegar við komum til útlanda til að fara að ná alþjóðasamningum gangi það allt voðalega hægt. En ég hef trú á því, virðulegi forseti, að hér muni eitthvað eiga sér stað, það er a.m.k. mjög góður tónn í EFTA-nefndinni milli Íslendinga, Norðmanna, Svisslendinga og Liechtensteina og allir tilbúnir að leggja sitt af mörkum og ýta á að þessi mál geti gengið sem hraðast.