Fríverslunarsamtök Evrópu 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 17:05:19 (5381)

2004-03-16 17:05:19# 130. lþ. 84.12 fundur 586. mál: #A Fríverslunarsamtök Evrópu 2003# skýrsl, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[17:05]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hérna fer fram fróðleg og mikilvæg umræða um fríverslun Íslendinga og annarra þjóða gegnum EFTA-samstarfið. Vonandi er að egypsku kartöflurnar standi ekki í veginum fyrir slíku samkomulagi á milli EFTA og Egyptalands.

Vegna þessa og í ljósi þeirrar umræðu sem hér fer fram um mikilvægi fríverslunarsamnings við Kanada langaði mig til að beina þeirri spurningu til hv. formanns þingmannanefndarinnar hvort mögulegt sé, ef ekkert gengur á næstunni hjá EFTA, að Íslendingar geri hreinlega tvíhliða samninga á milli sín og Kanada. Ég spyr ekki síst með tilliti til þess að við höfum sérstök tengsl við Kanada, ættartengsl í gegnum þann stóra hóp Kanadamanna sem lítur á sig sem Íslendinga eða a.m.k. af íslensku bergi brotna þannig að það er mikill vilji fyrir því í Kanada að efla tengslin beint við Ísland á mörgum sviðum, hvort sem er fríverslun eða menningarmál, þó sérstaklega á sviði viðskipta sem kannski skiptir líka mestu máli í dag. Þess vegna beini ég þeirri spurningu til formannsins hvort hann telji mögulegt, ef ekkert gangi hjá EFTA, að Íslendingar geri tvíhliða samkomulag á milli sín og Kanada.