Fríverslunarsamtök Evrópu 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 17:06:41 (5382)

2004-03-16 17:06:41# 130. lþ. 84.12 fundur 586. mál: #A Fríverslunarsamtök Evrópu 2003# skýrsl, GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[17:06]

Gunnar Birgisson (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Kanada held ég að það verði að láta reyna á hvort þetta geti gengið. Það er fullur vilji, eða var það hjá gömlu viðskiptanefndinni hjá Kanada, að slíkt mundi ganga. Nú vitum við kannski ekki hvernig þetta nýja fólk tekur því en ég vil a.m.k. að við leggjumst á árarnar, allir EFTA-þingmennirnir, og það eru allir sammála því, jafnt Norðmenn sem aðrir, að láta reyna á það til þrautar. Það eru gífurlega miklir hagsmunir fyrir Íslendinga að fá fríverslunarsamning við Kanada, það eru gífurlega miklir hagsmunir fyrir íslenskt samfélag að fá slíkan fríverslunarsamning. Menn þurfa kannski að hugsa upp á nýtt ef slíkt strandar í viðræðum milli EFTA og Kanada en ég hef ekki trú á því. Þegar Kanadamennirnir verða búnir að svara munum við formennirnir fara, formenn landsnefndanna, þ.e. Íslands, Noregs, Sviss og Liechtensteins, og ræða við Kanadamennina til að reyna að koma þessu máli í höfn. Við látum a.m.k. fyrst reyna á það áður en við förum í tvíhliða viðræður við Kanada.

Virðulegi forseti. Viðskiptasamningur, fríverslunarsamningur við Kanada, er afar mikilvægur íslensku samfélagi.