ÖSE-þingið 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 17:25:39 (5384)

2004-03-16 17:25:39# 130. lþ. 84.14 fundur 614. mál: #A ÖSE-þingið 2003# skýrsl, PHB
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[17:25]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Ég mæli fyrir skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2003.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu er samstarf 55 ríkja í Evrópu og Norður-Ameríku og allt austur til Asíu. Henni er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu ríkja í Evrópu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar. Til hliðar við þessa stofnun starfar þingmannasamkunda ÖSE, ÖSE-þingið sem skipað er þjóðkjörnum þingmönnum aðildarríkjanna.

Að undanförnu hefur meginmarkmið ÖSE verið framkvæmd Dayton-samkomulagsins í Bosníu og Hersegóvínu, friðargæsluverkefni í Kosovo-héraði, uppbyggingarverkefni í Serbíu og Svartfjallalandi og verkefni í Mið-Asíulýðveldunum. Stofnuninni hefur verið falið að hafa umsjón með framkvæmd kosninga, fylgjast með mannréttindamálum, byggja upp réttarkerfi og frjálsa fjölmiðla og aðstoða við gerð samninga um traustvekjandi aðgerðir og takmörkun vígbúnaðar.

Áhersla ÖSE hefur þokast æ meir í austurátt og þá aðallega til Kákasus-ríkjanna og ríkja Mið-Asíu. Um þessar mundir starfrækir ÖSE 18 skrifstofur í 17 löndum allt frá Albaníu austur til Kirgistan og hefur í auknum mæli styrkt störf stofnunarinnar á vettvangi.

ÖSE hefur reynst afar mikilvægur samráðsvettvangur fyrir mörg önnur knýjandi málefni líkt og baráttuna gegn mansali, eiturlyfjasmygli og vopnasmygli sem tengst hafa hryðjuverkastarfsemi með beinum eða óbeinum hætti.

Hjá ÖSE-þinginu starfa þrjár nefndir. Ein nefnd sem fjallar um stjórnmál og öryggismál, önnur um efnahags- og umhverfismál og þriðja um lýðræðis- og mannréttindamál. Eru þetta meginverkefni ÖSE.

Frú forseti. Ég ætla ekki að fara að lesa skýrsluna frá orði til orðs heldur vísa til þess sem þar kemur fram.

Starfsemi ÖSE-þingsins fer fram á þremur fundum. Fyrsti fundurinn á árinu 2003 var stjórnarnefndar- og málefnanefndarfundur í Vínarborg. Þátttaka í þeim fundi var góð en það orðin regla að fulltrúar þinganna hittist í Vín á hverjum vetri. Á fundinum í Vín þann 21.--22. febrúar árið 2003 var rætt um Hvíta-Rússland sem oftar. Urðu miklar umræður um það hvort fulltrúar þings Hvíta-Rússlands sætu á ÖSE-þinginu eða hvort nýtt þing ætti þar fulltrúa. Var niðurstaðan sú að þing Hvíta-Rússlands endurheimti sæti sitt á ÖSE-þinginu sem það hafði misst áður.

Utanríkisráðherra Hollands, sem fór með formennsku í ráðherraráði ÖSE árið 2003, þ.e. yfirmaður stofnunarinnar, hélt afar áhugaverða ræðu á fundinum. Hann sagði að Hollendingar hygðust m.a. setja baráttuna gegn mansali á oddinn í formennskutíð sinni. Hann taldi mansal vera nútímaþrældóm og eitt flóknasta og mikilvægasta úrlausnarefni Evrópubúa í nánustu framtíð. Sagði hann að öll rök bentu til að mansal hefði áhrif í nær öllum aðildarríkjum ÖSE og að skipulegt mansal vægi að hjarta grundvallarforsendna ÖSE um mannlegt öryggi, mannréttindi, réttarríkið og félagslegan og pólitískan stöðugleika.

Á fundi nefndar um stjórnmál og öryggismál var rætt um frekari samhæfingu aðildarríkja ÖSE í baráttunni gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi.

[17:30]

Á fundi 3. nefndar sem fjallar um lýðræði, mannréttindi og mannúðarmál, var rætt mikið um frelsi fjölmiðla, auk þess sem rætt var um stöðu sígauna eða róma í Evrópu, í nefnd sem fjallar um minnihlutahópa. Í erindi Freimuts Duves sem fjallaði um frjálsa fjölmiðlun kom fram að hann sagðist vera óþreytandi við að vekja máls á því sem miður hefði farið í fjölmiðlaþróun í álfunni og nefndi til að mynda fjölmiðlaeign í Rússlandi og Ítalíu máli sínu til stuðnings. Sagði hann að í báðum ríkjunum væri afar mikil hætta á að ráðamenn misnotuðu aðstöðu sína og að hann sjálfur hefði bent á það margsinnis. Varaði hann sérstaklega við þróun mála á Ítalíu. Þá ræddi hann um viðsjár á alþjóðavettvangi með tilliti til stöðu mála í Írak og minnti þingmenn á að ábyrgð fjölmiðla væri ákaflega mikil á stríðstímum því að sannleikurinn væri að öllu jöfnu fyrsta fórnarlamb stríðsátaka.

ÖSE veitir árlega blaðamannaverðlaun á vetrarfundinum í Vínarborg. Að þessu sinni hlaut þau rússneskur blaðamaður, Anna Politkovskaya, sem stundar blaðamennsku fyrir rússneska dagblaðið Novaya Gazeta. Hún hlaut verðlaunin fyrir störf sín í Tsjetsjeníu á undanförnum árum og hefur hún verið óþreytandi við að benda umheiminum á þau gífurlegu mannréttindabrot sem viðgengist hafa í Kákasus-héraðinu undanfarin ár.

Tólfti ársfundur ÖSE-þingsins var að þessu sinni haldinn í Rotterdam 5.--9. júlí. Hann er haldinn á hverju sumri í mismunandi borgum samstarfsins. Þar var rætt um hlutverk Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í hinni nýju stofnanaskipan Evrópu. Það var sem sagt rætt um samstarf ÖSE og samvinnu við aðrar stofnanir eins og Evrópusambandið og Evrópuráðið.

Fyrsti liður fundarins var fundur stjórnarnefndar sem skipuð er formönnum allra landsdeilda. Þar var rætt m.a. um ráðstefnur þar sem hafði verið rætt um lítil og meðalstór fyrirtæki, ráðstefnu um málefni Mið-Asíu sem haldin var í Almaty, auk þess sem rætt var um kosningaeftirlit á vegum ÖSE-þingsins.

Þá ræddi Rolf Ekeus, forstöðumaður stofnunar ÖSE, sem fylgist með mannréttindum minnihlutahópa um hættuástandsstjórnun, þ.e. hvernig leitast er við að koma í veg fyrir að félagsleg spenna myndist milli þjóðernis- eða trúarhópa sem gæti komið fram í átökum. Reynt væri að finna leiðir til að samþætta minnihlutahópa við ríkjandi hópa og standa þannig vörð um fjölmenningarsamfélagið. Þær leiðir sem væru nýttar væru tungumálakennsla, almenn menntun og þátttaka í stjórnmálum. Það er staðreynd, frú forseti, að mörg þau vandamál sem við glímum við í baráttunni fyrir friði og gegn ófriði stafa einmitt af spennu sem myndast milli þjóðarbrota.

Það var líka rætt um ákaflega neikvæða þróun er varðar fjölmiðlafrelsi í álfunni. Var rætt um það að eftirmál hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum væru að þeir hroðalegu atburðir hefðu verið nýttir sem skálkaskjól til að vega að frelsi fjölmiðla til að halda uppi gagnrýni á stjórnvöld. Taldi ræðumaður það vera mjög hættulega þróun sem menn þyrftu að sporna við og segja má, frú forseti, að á vissan hátt hafi hryðjuverkamennirnir sem frömdu glæpinn mikla í Bandaríkjunum í september náð fram markmiðum sínum með því að nú hefur verið gripið til mikilla ráðstafana sem hemja frelsi einstaklinga, því miður. Nýjustu atburðir á Spáni sýna okkur líka að í raun eru hermdarverkamenn farnir að stýra úrslitum kosninga.

Þá var rætt um bágan efnahag ríkja í Kákasus og Mið-Asíu og hve mikil hætta væri á að þau yrðu gróðrarstía fyrir hvers kyns skipulagða glæpastarfsemi á borð við mansal, vopnasmygl og eiturlyfjasmygl. Það er alveg á hreinu að þegar fólk býr við mikla örbirgð og fátækt er miklu meiri hætta á því að það leiðist út í glæpi. Og enn var rætt um Hvíta-Rússland á þessum fundum.

Ég ætla að hlaupa hratt yfir sögu og geta um aukastjórnarnefndarfund sem var haldinn í Róm 10. október sl. Meginefni fundarins var samskipti ÖSE-þingsins við Miðjarðarhafsríkin, en mikill áhugi er á því að efla þau tengsl, ekki síst í ljósi hinnar alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkum. Marcello Pacini tók til máls og ræddi opinskátt um vandann við trú og trúarofstæki og hversu mikil ógn við friðinn trú getur orðið, sérstaklega ef tekið væri mið af stöðu mála í Miðausturlöndum og á Balkanskaga. Meðal annars gat hann um spennu sem virtist ríkja í samskiptum Tyrkja og Grikkja og hefur ríkt mjög lengi vegna málefna Kýpur sem klædd eru í trúarlegan búning í málflutningi margra stjórnmálamanna.

Forseti ÖSE-þingsins ræddi á þessum fundi um kosningaeftirlitshlutverk ÖSE-þingsins og sagði að það væri óæskilegt að aðrar stofnanir en ÖSE, þ.e. Evrópuráðið og Evrópusambandið, tækju yfir skyldur og skuldbindingar ÖSE á sviði kosningaeftirlits. Þá sagðist hann hafa orðið fyrir vonbrigðum með að fulltrúar Ísraels og Palestínu sem boðið hafði verið til fundarins skyldu ekki geta þegið boðið. Látið var að því liggja á fundinum að Ísraelsmenn hefðu lagt stein í götu fulltrúa palestínsku heimastjórnarinnar þannig að þeir gætu ekki sótt fundinn.

Á fundinum tók til máls Jan Kubis, framkvæmdastjóri ÖSE, og ræddi um fjárlög ÖSE, en þeim hafði verið dreift í annað skipti til þingaðila og þá fjárlög ÖSE-stofnunarinnar. Hann sagði að drögin hefðu verið send til að endurspegla pólitískar áherslur framkvæmdastjórnarinnar og væru því alls ekki yfir gagnrýni hafin. Hann sagði að lögð væri áhersla á verkefni stofnunarinnar í stað þess að efla skrifstofurnar, eins og gert hafði verið áður.

Það kom fram að fjárlög stofnunarinnar hljóða upp á 185 millj. evra eða sem svarar 16 milljörðum ísl. kr. Það kostar að reka ÖSE-stofnunina á ári.

Svo mörg voru þau orð, frú forseti, í skýrslunni og ég vísa þá enn og aftur til skýrslunnar sem slíkrar. En ég vildi gjarnan koma inn á það hvernig þetta blasir við mér sem fulltrúa á þessu þingi að sækja ráðstefnur eins og hér um ræðir.

Því miður eru margar ræður sem haldnar eru á ÖSE-þinginu ekki mjög innihaldsríkar. Þær hefjast á því að menn þakka síðasta ræðumanni fyrir góða ræðu og síðan þakka menn fyrri ræðumönnum. Svo er starfsmönnum þakkað fyrir störfin sem þeir hafa unnið og svo tala menn eitthvað innantómt dágóða stund. Eftir ræðuna situr maður svo eiginlega og veltir fyrir sér hvað maðurinn var eiginlega að segja.

Ég held að það sé ekki rétt að safna saman 300 þingmönnum víðs vegar að úr Evrópu, Asíu og Ameríku til þess að hlusta á slíkar ræður. Reyndar eru inn á milli aftur og aftur góðar ræður og það skal viðurkennast sem gott er. Mér finnst samt sem áður að þessi gagnrýni megi gjarnan heyrast. Mér finnst að við eigum að spyrja okkur hvort ekki megi verja betur þeim fjármunum sem þarna er varið með annars lags skipulagi á þessum fundum. Þetta eru 16 milljarðar til ÖSE-stofnunarinnar og einhver hundruð milljónir til ÖSE-þingsins. Til dæmis teldi ég betra að nefndir frá hinum ýmsu þjóðþingum á ÖSE-þinginu hittust á þessum fundum og tækju upp skipulegar samræður sín á milli á skipulegan hátt. Það teldi ég vera mjög gott til þess að leysa þau vandamál sem ÖSE-þinginu er ætlað að leysa, þ.e. að bæta úr mannréttindum og friði í Evrópu.

Það blasir líka við þegar maður sækir þessar ráðstefnur að menn eru endalaust að ræða sömu málin. Það er verið að ræða um Kýpur og Hvíta- Rússland. En í engu miðar. Það er líka nokkurn veginn sama fólkið sem maður sér ár eftir ár á þessum ráðstefnum. Maður spyr sig hvort þetta sé eins gott starf og hægt er og hvort þetta sé eins góð nýting á þeim fjármunum sem um er að ræða, sem skattgreiðendur í öllum þessum löndum leggja fram, margir hverjir ekki mjög fjáðir því að þessi lönd eru sum hver mjög fátæk. Ég vil því gera kröfu til þess að þetta starf skili meiru en við mér blasir alla vega.

Að öðru leyti vísa ég til skýrslu Íslandsdeildarinnar um starf ÖSE-þingsins.