Evrópuráðsþingið 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 17:41:24 (5385)

2004-03-16 17:41:24# 130. lþ. 84.15 fundur 621. mál: #A Evrópuráðsþingið 2003# skýrsl, SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[17:41]

Sólveig Pétursdóttir:

Hæstv. forseti. Á þskj. 929 liggur fyrir skýrsla frá Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2003. Ég vil fylgja skýrslunni úr hlaði með nokkrum orðum án þess að rekja efni hennar ítarlega.

Hvað starfsemi Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og starfsemi þingsins sjálfs á árinu varðar vísa ég til skýrslunnar.

Fram að alþingiskosningum 10. maí voru aðalmenn Íslandsdeildarinnar Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður, Ólafur Örn Haraldsson, varaformaður og Margrét Frímannsdóttir. Varamenn voru Kjartan Ólafsson, Kristinn H. Gunnarsson og Kristján L. Möller. Ný Íslandsdeild var skipuð í upphafi 129. þings. Aðalmenn voru Sólveig Pétursdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Margrét Frímannsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Árni R. Árnason, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Össur Skarphéðinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Ritari Íslandsdeildarinnar var Andri Lúthersson.

Ég vil nota þetta tækifæri fyrir hönd Íslandsdeildarinnar til þess að koma sérstaklega á framfæri þökkum til Láru Margrétar Ragnarsdóttur fyrir mikilsverð störf hennar í þágu Evrópuráðsins. Þá vill Íslandsdeildin einnig þakka starfsfólki fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu sem veitt hefur þingmannanefndinni mikinn stuðning í störfum sínum.

Skýrslan sem hér liggur fyrir er ítarlegt skjal og óþarfi er að rekja öll efnisatriði hennar. Vil ég þó víkja aðeins að þeim helstu málefnum sem komu til kasta Evrópuráðsins og Evrópuráðsþingsins á liðnu ári, málefnum sem að mörgu leyti varða veginn til næstu ára.

Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja lýðræðis- og efnahagsuppbyggingu í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með efnahags-, laga- og tækniaðstoð og kosningaeftirliti. Segja má að ríki Evrópuráðsins myndi nú eina órofa pólitíska heild með inngöngu 45. aðildarríkisins á árinu og með vaxandi verkefnum og auknum umsvifum er óhætt að segja að vægi ráðsins hafi því aukist verulega undanfarin ár. Á vettvangi ráðherranefndar Evrópuráðsins var nokkuð rætt um hugmyndir þess efnis á árinu að efna til þriðja leiðtogafundar ráðsins og hvaða málefni verði fjallað um þar. Fyrirhugað er að slíkur fundur verði haldinn árið 2004. Þá varð framhald á umræðum um endurskipulagningu Mannréttindadómstóls Evrópu og liggur framkvæmdaáætlun fyrir í þá veru. Samskipti Evrópusambandsins og Evrópuráðsins hafa verið mjög í deiglunni undanfarin missiri og á árinu varð framhald á þeim umræðum, sérstaklega með tilliti til stækkunar ESB, stjórnarskrárdraga sambandsins og svokallaðrar réttindaskrár Evrópusambandsins.

Þing Evrópuráðsins er umræðuvettvangur fyrir flestalla málaflokka sem eru samevrópskir í eðli sínu og er Evrópuráðsþingið nú eina samevrópska þingmannasamkundan þar sem þingmenn Vestur-, Mið- og Austur-Evrópu starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Ólíkt Evrópuþinginu eru fulltrúar á Evrópuráðsþinginu þjóðkjörnir þingmenn og hafa störf þingsins því beina skírskotun til starfa þjóðþinganna sjálfra. Þessi staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika Evrópuráðsþingsins fyrir íslenska hagsmuni.

[17:45]

Af lýðræðis-, réttarfars- og eftirlitsmálum sem jafnan eru til meðferðar á Evrópuráðsþinginu var staða mála í Moldavíu, Georgíu, Aserbaídsjan og Armeníu ofarlega á baugi á liðnu ári. Hvatti þingmannasamkundan ráðherraráð Evrópuráðsins til að nýta allar færar leiðir til að leysa úr þeim vanda sem skapast hefði í þessum ríkjum á undanförnum árum.

Nokkrar umræður voru jafnframt um málefni flóttamanna og landamærahindranir, en auk þess bar mikið á umræðu um hina alþjóðlegu baráttu gegn mansali og tengdri glæpastarfsemi.

Framan af árinu 2003 voru átökin í Tsjetsjeníu nokkuð hátt á dagskrá Evrópuráðsþingsins líkt og undangengin ár. Þá voru deilur um aðdraganda stríðsins í Írak og stríðsreksturinn sjálfan fyrirferðarmiklar á þinginu og hjá flestum alþjóðastofnunum á síðasta ári og blandaðist sú umræða við áframhaldandi umræður um baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum staldra aðeins við síðastnefnda atriðið, baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Er það ekki að ósekju, enda erum við sem aðrir Evrópubúar slegin yfir þeim hörmungarfregnum sem bárust frá Madríd í liðinni viku. Á fundi Evrópuráðsþingsins í janúar sl. var efnt til umræðna um hryðjuverkastarfsemi og ógn hryðjuverka við lýðræðissamfélög. Sú sem hér stendur sagði í þeim umræðum að áhrifa hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin gætti enn og að umtalsverður árangur hefði náðst að undanförnu í baráttunni gegn hryðjuverkum. Hins vegar væru margar hindranir á þeirri leið. Í ræðunni kom fram að þessi barátta kallaði á nýjar og breyttar aðferðir og að sumar þjóðir hefði verið lengur en aðrar að átta sig á hinni nýju heimsmynd í kjölfar hryðjuverkanna 11. september 2001. Hins vegar væri staðan nú um stundir sú að allir ættu að geta talað sama máli og því væri brýn þörf á að friðelskandi þjóðir Evrópu sameinuðust í þessari baráttu. Varaði sú sem hér stendur jafnframt gegn áhrifum þess að grafa undan farsælu öryggissamstarfi Atlantshafsþjóða sem kynni að afvegaleiða hina afar knýjandi umræðu um baráttuna gegn hryðjuverkum.

Þá var sagt að leiðir til að stemma stigu við hryðjuverkaógninni væru mun fleiri en beiting hervalds sem lokaúrræði. Til að mynda væri rík nauðsyn á því að alþjóðasamfélagið almennt og Evrópuráðið sérstaklega næðu samstöðu um heildrænan alþjóðasáttmála um baráttuna gegn hryðjuverkum. Hryðjuverk væru hrein ógn við lýðræðið og að breytinga á sviði alþjóðalaga væri þörf til að uppræta þá ógn.

Sú grímulausa grimmd og það fólskulega hatur sem birtist okkur í hryðjuverkaárásunum á New York og Washington í septembermánuði árið 2001 hefur látið á sér kræla á ný. Þótt enn sé of snemmt að kveða upp úr um það hverjir beri ábyrgð á ódæðisverkunum í Madríd er ljóst að þau bera handbragð þeirra afla sem leitast við að skapa glundroða og ótta og vega að styrkum stoðum lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis í vestrænum þjóðfélögum.

Evrópubúar þekkja svo sannarlega hryðjuverkaógnina af eigin raun. Á öndverðri síðustu öld börðust fjölmargir hryðjuverkahópar fyrir innihaldsrýrum málsstað með blóðugum aðferðum. En á hinn bóginn hafa Evrópubúar ekki kynnst hryðjuverkaógninni heima fyrir af slíkri stærðargráðu. Að mörgu leyti má segja að Evrópubúar séu að upplifa það sama og Bandaríkjamenn fyrir tæpum þremur árum. Er staðan nú slík að viðbúnaður er víðast hvar á hæsta stigi og búast verður við því að ógnin geti steðjað að hvar og hvenær sem er. Með þessum óhæfuverkum hefur kastljósið nú í einu vetfangi færst frá vám í Mið-Austurlöndum og Suður-Asíu til viðvarandi ógnar sem íbúum Evrópu stafar af hryðjuverkaöflum sem eira engu. Í ljósi slíkrar stöðu er ekki ólíklegt að hlutverk og áherslur Bandaríkjanna kunni að breytast á næstu missirum og kann það að hafa jákvæð áhrif á viðræður okkar og Bandaríkjamanna um framtíð varnarstöðvarinnar í Keflavík.

Þegar kemur að hinni alþjóðlegu baráttu gegn hryðjuverkastarfsemi erum við Íslendingar ekki undanskildir þótt jafnan heyrist raddir sem eru á öndverðum meiði. Til eru þeir sem telja að íslensk stjórnvöld geti komið sér hjá því að taka afstöðu til jafnmikilvægra mála og baráttunni gegn hryðjuverkaógninni. Enn aðrir telja að með því að fylkja sér um stefnu úrtölumanna og þeirra sem helst vilja fljóta sofandi að feigðarósi sé öryggi landsins best borgið.

Íslendingar, sem og aðrir þegnar ríkja Evrópuráðsins sem hér er til umræðu, geta ekki vikið sér undan ábyrgðinni að berjast af hörku gegn hryðjuverkaógninni. Sú barátta er hnattræn í eðli sínu og atburðirnir á Spáni sýna okkur enn og aftur glögglega fram á að alþjóðleg samvinna sem miðar að áþreifanlegum árangri er frumskilyrði á þessari vegferð.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið framsögu minni. Skýrslan sjálf er ítarlegt skjal og vísa ég til hennar um önnur efnisatriði starfsemi Evrópuráðsþingsins. Þá vil ég nota tækifærið og þakka nefndarmönnum fyrir vel unnin störf á þessum mikilvæga vettvangi. Evrópuráðið er sá vettvangur þar sem öll evrópsk ríki sameinast á jafnræðisgrundvelli. Þessi fyrirrennari Evrópusambandsins er því frjósamur farvegur og vettvangur þar sem unnt er að ná til annarra ríkja sem standa utan ESB. Þessi tenging er okkur Íslendingum afar mikilvæg og verður það til frambúðar.