Vestnorræna ráðið 2003

Þriðjudaginn 16. mars 2004, kl. 17:59:42 (5387)

2004-03-16 17:59:42# 130. lþ. 84.17 fundur 649. mál: #A Vestnorræna ráðið 2003# skýrsl, BÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 130. lþ.

[17:59]

Birgir Ármannsson:

Hæstv. forseti. Ég mun gera grein fyrir skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins um störf ráðsins á árinu 2003, en skýrslan í heild sinni er lögð fram á þskj. 966 sem er 649. mál þingsins.

Meginmarkmið Vestnorræna ráðsins er sem kunnugt er að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum nágrannalandanna þriggja, Færeyja, Grænlands og Íslands. Ráðinu er ætlað að gæta auðlinda, velferðar og menningar þjóðanna á sem víðtækastan hátt. Í starfi sínu í Vestnorræna ráðinu leitast þingmenn við að ná fram markmiðum sínum með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna, með virkri þátttöku í norrænu samstarfi, samstarfi við aðra aðila og samtök á Vestur-Norðurlöndum og skipulagningu á ráðstefnum og öðrum verkefnum.

Vestnorræna ráðið rekur sérstaka skrifstofu og er framkvæmdastjóri ráðsins Færeyingurinn Ernst Olsen. Skrifstofa ráðsins hefur frá upphafi verið staðsett á Alþingi og nýtur í mörgum efnum sambýlisins við skrifstofu þingsins og starfslið þess, þó að reksturinn og starfsemin séu auðvitað að öðru leyti sjálfstæð.

Ég vík nú, virðulegi forseti, að skipan og störfum Íslandsdeildarinnar á liðnu ári.

Í byrjun árs 2003 skipuðu Íslandsdeildina eftirtaldir þingmenn: Einar Oddur Kristjánsson, formaður, Hjálmar Árnason, varaformaður, Gísli S. Einarsson, Guðmundur Hallvarðsson, Svanfríður Jónasdóttir og Kjartan Ólafsson. Varamenn voru Einar K. Guðfinnsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Gunnar Birgisson, Ólafur Örn Haraldsson, Guðjón A. Kristjánsson og Arnbjörg Sveinsdóttir. Í kjölfar alþingiskosninga var ný Íslandsdeild kjörin 27. maí sl. Hana skipa sá er hér stendur, formaður, Hjálmar Árnason, varaformaður, Guðrún Ögmundsdóttir, Einar Oddur Kristjánsson, Margrét Frímannsdóttir og Magnús Þór Hafsteinsson. Varamenn voru kjörnir Gunnar Birgisson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Magnús Stefánsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Helgi Hjörvar og Sigurjón Þórðarson. Íslandsdeildin var endurkjörin 1. október í upphafi 130. þings. Á fyrsta fundi deildarinnar hinn 8. október var sá er hér stendur endurkjörinn formaður og Hjálmar Árnason varaformaður. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var ritari Íslandsdeildar til 10. október en þá tók Arna Gerður Bang við starfinu.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hélt sjö fundi á árinu. Helstu störf hennar lutu að miklum undirbúningi við yfirgripsmikla úttekt á starfsemi Vestnorræna ráðsins, en deildin lagði metnað sinn í að skila inn greinargóðum tillögum til breytinga. Í tillögum sínum bendir Íslandsdeild sérstaklega á að starfsreglum ráðsins sé ábótavant í ýmsum efnum og ekki framfylgt á viðunandi hátt, einkum hvað varðar ákvæði um tímamörk, útsendingu fundargagna, tillöguflutning, fjárhagsáætlun o.fl.

Í greinargerð Íslandsdeildar er einnig hvatt til þess að forsætisnefnd ræði kosti þess og galla að lengja formennskutímabilið úr einu ári í tvö og einbeiti sér að kjarnastarfi sínu, þ.e. að efla tengsl á milli Vestnorrænu landanna í stað þess að beina kröftum sínum um of að alþjóðasamstarfi.

Einnig ræddi Íslandsdeildin hvort nauðsynlegt væri að hafa fullt stöðugildi fyrir framkvæmdastjóra og skrifstofurekstur ráðsins. Umræður um þessi efni hafa farið fram áfram innan forsætisnefndar ráðsins og eru nokkuð skiptar skoðanir milli landsdeildanna hvað þetta efni varðar. Vænta má að línur taki að skýrast nú með vorinu þannig að unnt verði að taka afstöðu til hugsanlegra breytinga á ársfundi ráðsins sem haldinn verður á Grænlandi í ágúst.

Á fundum sínum lagði Íslandsdeild fram úrbætur á tilhögun barnabókaverðlauna ráðsins og að frumkvæði Íslandsdeildar var efnt til samkeppni um sérstakt merki verðlaunanna. Ákvörðun um val á merki var tekin á fundi forsætisnefndar í Ósló í október sl. og hreppti þau Íslendingurinn Halldór Einarsson. Þær bækur sem hljóta tilnefningu eru á vegum menntamálaráðuneyta landanna þýddar á vestnorrænu málin og eitt norrænt tungumál og er gert ráð fyrir að bækurnar komi að gagni í fræðslustarfi landanna. Verðlaunin verða veitt annað hvert ár og næst nú í ár, árið 2004.

Norrænu húsin á Íslandi og í Færeyjum og Norræna stofnunin á Grænlandi hafa hug á að standa áfram fyrir uppsetningu vestnorrænnar veiðimenningarsýningar sem vakið hefur mikla og verðskuldaða athygli. Sýningin þykir vel heppnuð og hefur hvarvetna hlotið mikið lof. Sýningin hefur farið víða og m.a. verið sett upp í Færeyjum, í Reykjavík, á Akureyri, í Nuuk, í Kaupmannahöfn, á Hjaltlandseyjum og á Írlandi. Fyrirhugað er að sýningin verði einnig sett upp í Stokkhólmi og Helsinki á næstunni og hugsanlega í fleiri löndum síðar. Vegna þeirra góðu viðbragða sem sýningin hefur fengið hafa komið fram tillögur um að hún verði hugsanlega sett upp á sýningunni EXPO 2005 í Aichi í Japan. Vinna norrænu húsin þrjú að því marki og hefur forstöðumaður Norrænu stofnunarinnar í Nuuk forgöngu um málið. Íslandsdeildin hefur fyrir sitt leyti lýst stuðningi við þessi áform, en enn eru margir óvissuþættir varðandi framhaldið.

Dagana 10.--13. júní 2003 var þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um heilbrigðismál haldin í Ilulissat á Grænlandi. Formaður Vestnorræna ráðsins, Jonathan Motzfeldt, hélt þar tölu þar sem fram kom að heilbrigðismál væru þema ráðstefnunnar að tillögu Grænlendinga. Heilbrigðismál væru afar vandasamur málaflokkur á Grænlandi enda væri heilbrigði og almennri heilsu Grænlendinga ábótavant í ýmsu. Erfitt er að manna stöður á sjúkrahúsum á Grænlandi og margir sjúklingar eru fluttir til Danmerkur, en barnadauði er t.d. þrefalt algengari á Grænlandi en í Danmörku. Jonathan Motzfeldt sagði einu lausn Grænlendinga liggja í auknu samstarfi á þessu sviði og því væri ráðstefna sem þessi afar brýn.

Á ráðstefnunni var umfjöllun um samning sem í gildi er milli Íslands og Grænlands frá árinu 1997, um að Íslendingar sinni bráðatilfellum frá Grænlandi. Í erindum á ráðstefnunni kom fram að heilbrigðisyfirvöld Grænlands og Íslands muni á næstunni fara yfir hvernig samningurinn hefur gengið og hvernig best sé að auka samstarfið.

Í lok ráðstefnunnar var samþykkt einróma ályktun sem kallaði á aukið samstarf vestnorrænu landanna í heilbrigðismálum og hefur sú tillaga verið lögð fram á Alþingi í formi þáltill.

Dagana 14.--16. ágúst 2003 var ársfundur Vestnorræna ráðsins haldinn á Eiði í Færeyjum. Tvær ályktanir voru samþykktar á fundinum. Annars vegar var samþykkt ályktun þar sem skorað er á ríkisstjórnir landanna að koma á frekara samstarfi í heilbrigðismálum og leita leiða til að löndin geti samnýtt krafta sína betur á sviði heilbrigðisþjónustu. Í ályktuninni er auk þess skorað á heilbrigðisyfirvöld að gefa árlega skýrslu um samstarfið og þau verkefni sem sameiginlega hafi verið ráðist í. Þá var þar líka samþykkt ályktun um að auka samráð landanna þriggja um sjálfbæra nýtingu fiskstofna. Í greinargerð ályktunarinnar segir að löndin öll reiði sig öðru fremur á auðlindir hafsins og því sé framtíð þjóðanna undir því komin að umgengni um auð hafsins sé byggð á sjálfbærum grunni. Ályktanir fundarins voru samþykktar samhljóða.

Fjölbreytt verkefni bíða Vestnorræna ráðsins á árinu 2004. Þemaráðstefna ráðsins verður haldin í Reykjavík og Svartsengi dagana 9.--10. júní nk. og mun að þessu sinni verða fjallað um orkumál. Íslandsdeildin hefur þegar hafið undirbúning ráðstefnunnar og eru viðræður við aðila sem lagt gætu málefninu lið nú þegar hafnar.

Hæstv. forseti. Það er ljóst að margvísleg málefni eru á döfinni hjá ráðinu sem snerta auðlindir, velferð og menningu vestnorrænu landanna þriggja. Það er von Íslandsdeildarinnar að þessum málum verði áfram sýndur sá áhugi sem þegar hefur komið fram á Alþingi. Í þessu efni skiptir verulegu máli að Ísland hefur lagt á það áherslu innan Norðurlandaráðs að vestnorrænum málefnum verði gefinn sérstakur gaumur nú á þessu ári sem er formennskuár Íslands í norrænu ráðherranefndinni.

Að þessum orðum sögðum læt ég lokið máli mínu um störf Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins á árinu 2003, en vísa varðandi nánari upplýsingar um starfsemi Íslandsdeildarinnar til þskj. 966 þar sem hana er að finna.