Tímasetning ráðstefna á vegum ráðuneyta

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 13:33:53 (5391)

2004-03-17 13:33:53# 130. lþ. 85.91 fundur 411#B tímasetning ráðstefna á vegum ráðuneyta# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil gera stutta athugasemd og koma með ábendingu til stjórnar Alþingis, en Alþingi og stjórn þingsins með forseta í fararbroddi hafa áður beint tilmælum eða óskum til ráðuneyta og ráðherra um að ráðstefnur sem skipulagðar eru á þeirra vegum og alþingismönnum er sérstaklega boðið til verði ekki skipulagðar í miðri þingviku og á miðjum þingdegi. Að þessu sinni á forsrn. og hæstv. forsrh. í hlut. Boðað er til mjög áhugaverðrar ráðstefnu um jafnréttismál í tilefni af heimastjórnarafmæli, aldarafmælinu, í Salnum í Kópavogi. Hæstv. félmrh., ráðherra jafnréttismála, kemur til með að ávarpa þessa ráðstefnu og tveir alþingismenn taka þar þátt í pallborðsumræðum. Mér er kunnugt um að margir þingmenn, þar á meðal þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, hefðu áhuga á að sækja þessa ráðstefnu en eiga ekki heimangengt vegna þess að til hennar er boðað á miðjum þingdegi í miðri þingviku.

Ég ítreka það, herra forseti, að ráðstefnan er mjög áhugaverð og ekkert nema gott um hana er að segja. En einmitt þess vegna ber að hafa í huga störf Alþingis og taka tillit til þeirra.