Tímasetning ráðstefna á vegum ráðuneyta

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 13:43:32 (5398)

2004-03-17 13:43:32# 130. lþ. 85.91 fundur 411#B tímasetning ráðstefna á vegum ráðuneyta# (aths. um störf þingsins), DrH
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[13:43]

Drífa Hjartardóttir:

Virðulegi forseti. Þetta eru nokkuð skondnar umræður dag eftir dag í þinginu um ráðstefnuhald úti í bæ. Ég held að það hafi ekki aftrað þingmönnum að sækja þær ráðstefnur sem þeir hafa kært sig um og viljað sækja. Þeir geta fengið leyfi frá störfum þá stund sem þeir fara á ráðstefnur. Ég vil bara þakka fyrir það ef ráðstefnur eru haldnar í miðri viku en ekki um helgar (Gripið fram í.) og því hefur löngum verið mótmælt af þeim sem starfa að jafnréttismálum að allar ráðstefnur skulu vera settar á helgar, á laugardaga og sunnudaga, þegar þann tíma ætti að nota með fjölskyldunni.

Svo vil ég aðeins bæta einu við af því að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hafði mörg orð um samflokksmenn sína, að þeir væru svo önnum kafnir í þingsal. Ég sé ekki betur en að hann sé bara einn hér núna í dag. (Gripið fram í.)

(Forseti (GÁS): Forseti telur að flest viðhorf hafi náð fram að koma í þessari umræðu og hefur hlýtt á hana en sér ekki ástæðu til að botna hana sérstaklega. Hann vekur athygli á því að það er löng dagskrá fram undan.)