Útgáfa bókarinnar Forsætisráðherrar Íslands

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 13:50:02 (5401)

2004-03-17 13:50:02# 130. lþ. 85.1 fundur 583. mál: #A útgáfa bókarinnar Forsætisráðherrar Íslands# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég get eiginlega ekki annað en haft gaman af því hvað heimastjórnarafmælið virðist irrítera óskaplega mikið suma hv. þingmenn og er það einkar athyglisvert.

Reyndar er það svo, varðandi það sem hv. þm. fjallaði um í sambandi við ráðherra Íslands annars vegar og síðan forsætisráðherra, að það hefur aldrei vafist fyrir neinum, nema þá hv. þm., að þeir sem hafa verið í forsæti fyrir Stjórnarráðinu allt frá 1904 eru ráðherrar Íslands fram undir 1917 og síðan forsætisráðherrar. Þar er algjört sögulegt samhengi og hafa allir litið þannig á nema þessi hv. þm. Hann getur auðvitað haft sitt sjónarmið.

Fyrst er spurt:

,,Hvenær var tekin ákvörðun um útgáfu bókarinnar Forsætisráðherrar Íslands á vegum ríkisstjórnarinnar?``

Síðastliðið sumar fól forsrh. fjögurra manna starfshópi, Júlíusi Hafstein, Illuga Gunnarssyni, Birni Inga Hrafnssyni og Halldóri Árnasyni, að gera tillögur um hvernig minnast ætti þeirra tímamóta á árinu 2004 er 100 ár væru frá því að Ísland fékk heimastjórn og þingræði var komið á hér á landi. En þann 1. febrúar 1904 var Stjórnarráð Íslands stofnað undir forsæti íslenskra ráðherra sem höfðu á bak við sig stuðning meiri hluta Alþingis.

Starfshópurinn skilaði tillögum til forsrh. ásamt kostnaðaráætlun. Í framhaldi var sótt um fjárveitingu til Alþingis á fjárlögum 2004. Ein tillaga starfshópsins var útgáfa á bók sem hefði að geyma stuttar frásagnir af öllum þeim sem gegnt hafa starfi ráðherra Íslands og síðan forsætisráðherra. Um er að ræða bók sem verður 350--400 síður. Gert er ráð fyrir allt að 100 myndum í svart/hvítu. Bókin verður innbundin, þ.e. saumuð, með góðu bókbandsefni og gyllingu á framhlið og kili. Hlífðarkápa verður í fjórlit og lökkuð.

Í öðru lagi er spurt:

,,Hefur þetta verk verið boðið út?``

Verkið er ekki komið það langt á veg að farið sé að huga að prentun og útgáfu. Þegar að því kemur verða allar hagkvæmar leiðir skoðaðar.

Í þriðja lagi er spurt:

,,Hver er áætlaður kostnaður við útgáfu bókarinnar og hvernig skiptist hann, höfundarlaun, þóknun ritstjóra eða ritnefndar, myndir, umbrot, prentun, kynningarkostnaður?``

Heildarkostnaður er áætlaður um 8 millj. kr. Þar af eru laun ritstjóra 1,6 millj. kr. miðað við starf í átta mánuði. Höfundarlaun til þeirra sem skrifa eru áætluð um 2,6 millj. kr. Þá mun þóknunarnefnd ákveða laun ritnefndar en ætla má að heildarþóknun verði u.þ.b. 300 þús. kr. Kostnaður vegna mynda er áætlaður um 400 þús. kr. og kostnaður vegna umbrots, prentunar og annarra þátta er áætlaður um 3 millj. kr. Í þessari áætlun er ekki gert ráð fyrir tekjum af bókinni sem gætu lækkað heildarkostnað töluvert en gert ráð fyrir að bókin komi a.m.k. út í 2 þús. eintökum.

Í fjórða lagi er spurt:

,,Hver er höfundur bókarinnar?``

Endanlegur fjöldi höfunda hefur ekki verið ákveðinn en þeir gætu orðið allt að 24 að hámarki, þ.e. jafnmargir þeim sem gegnt hafa starfi ráðherra Íslands og forsætisráðherra. Nú þegar mun liggja fyrir að þeir verða a.m.k. 23 og jafnvel 24.

Í fimmta lagi er spurt:

,,Hver er fyrirhugaður formlegur útgefandi bókarinnar?``

Um það hefur ekki verið tekin ákvörðun. Rétt er að nefna það hér til minnis, þó að um það sé ekki sérstaklega spurt, að í ritnefnd þessarar bókar eru Júlíus Hafstein, framkvæmdastjóri hátíðahaldanna, Sigurður Líndal, fyrrv. prófessor, Haraldur Ólafsson, fyrrv. prófessor og alþingismaður, Ingólfur Margeirsson, rithöfundur og blaðamaður, og Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og blaðamaður.

Að lokum er spurt:

,,Hyggur ríkisstjórnin á útgáfu fleiri bóka á árinu og þá hverra?``

Þriðja bindi Sögu Stjórnarráðs Íslands kemur út þann 17. júní. Jafnframt er að því stefnt þann sama dag að endurútgefa rit Agnars Klemensar Jónssonar Stjórnarráð Íslands 1904--1964.

Þá má nefna í framhjáhlaupi að ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í gær að styrkja útgáfu á sérstöku riti um krabbameinsrannsóknir og í annan stað að styrkja útgáfu á riti um utanríkisverslun Íslands, með fyrstu stuðningsgreiðslu við það. En það verk mun væntanlega taka tvö til þrjú ár og ríkisstjórnin hyggst styðja það.