Þjónustusamningur við Reykjavíkurakademíuna

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 14:25:52 (5417)

2004-03-17 14:25:52# 130. lþ. 85.3 fundur 681. mál: #A þjónustusamningur við Reykjavíkurakademíuna# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[14:25]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að fara að togast á um hugmyndir en hugmyndin um Vestfirðina og uppbyggingu háskólanáms á Vestfjörðum kom einmitt upp á þessum ágæta fundi okkar í morgun með forsvarsmönnum Reykjavíkurakademíunnar þar sem við leyfðum okkur að fara í svona ákveðið hugarflug um hvar hægt væri að efla og styrkja betur háskólanám á landsbyggðinni. Þar tókum við Vestfirðina inn í. Ég tel einmitt Reykjavíkurakademíuna hafa alla burði til þess að efla og styrkja það nám.

Eins og ég gat um áðan og m.a. í ljósi þeirra lögbundnu skyldna sem hvíla á menntmrn. er okkur einfaldlega þröngur stakkur sniðinn núna varðandi fjárframlög til frjálsra félagasamtaka eða sjálfseignarstofnana. Ég vil benda mönnum á að við erum núna að reyna að efla Tækniháskólann. Við gerðum Tækniskólann að háskóla árið 2000 og það er núna í ár sem þessi mörg hundruð manna skóli er að fá grunnframlag til rannsókna upp á 25 milljónir. Það er rétt rúmlega helmingi meira en það sem Reykjavíkurakademían er að fá. Ég held því að ef við reynum að skoða myndina heildstætt þá verðum við að sinna náttúrlega mörgum háskólastofnunum og reyna að styrkja og efla þær eins og við getum.

Ég get líka í sjálfu sér tekið undir það sem hefur komið hér fram að sér í lagi þegar um svona umfangsmikið starf á fræðasviðinu er að ræða eins og gengur og gerist innan Reykjavíkurakademíunnar þá er heppilegra að þetta verði í formi þjónustusamnings því eins og aðstæður eru núna höfum við ekki burði til þess að setja fram nægilega stöndugan, ef maður getur komist svo að orði, þjónustusamning við Reykjavíkurakademíuna. En ég mun eftir sem áður beita mér fyrir því að rekstrarframlagið verði nægilegt til þess að þeir geti haldið starfsemi sinni úti.