Framtíð sjúklinga á Arnarholti

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:01:30 (5433)

2004-03-17 15:01:30# 130. lþ. 85.12 fundur 646. mál: #A framtíð sjúklinga á Arnarholti# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., JBjart
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Jónína Bjartmarz:

Herra forseti. Það er ljóst að sú vinna sem starfshópnum sem hæstv. heilbrrh. nefndi áðan hefur verið falið, eru viðbrögð við aðgerðum á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi, hagræðingaraðgerðum þar. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að mér finnst sérstakt fagnaðarefni að þarna séu fulltrúar þessara ráðuneyta, auk fjmrn. og Landspítala, að setjast yfir þetta viðfangsefni. Og það sem mér finnst sérstakt ánægjuefni er að sú vinna miðar að því að leita að og finna úrræði og lausnir, einstaklingsmiðuð úrræði og lausnir fyrir þessa einstaklinga.

Það sem ég vildi kannski halda til haga í umræðunni er að enda þótt þetta þýði breytingar er ekki endilega sjálfgefið, eins og oft má merkja í umræðunni, að þær séu til hins verra. Ég sé fyrir mér að þær gætu orðið til bóta með auknum félagslegum úrræðum sem allir eru sammála um að henti hugsanlega þessum hópi sjúklinga betur en þau úrræði sem þeir hafa verið í.