Framtíð sjúklinga á Arnarholti

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:02:33 (5434)

2004-03-17 15:02:33# 130. lþ. 85.12 fundur 646. mál: #A framtíð sjúklinga á Arnarholti# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég fagna því að það skuli vera búið að setja á laggirnar starfshóp sem á að taka sérstaklega á málum þessara einstaklinga, þess hóps sem býr í Arnarholti og athuga með framtíðarbúsetuúrræði fyrir þann hóp.

En ég vil hins vegar taka undir það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði áðan. Það er alltaf svolítið seint í rassinn gripið. Auðvitað er, eins og hv. þm. Jónína Bjartmarz kom inn á, verið að bregðast við viðbrögðum stjórnenda Landspítala -- háskólasjúkrahúss sem taka þá ákvörðun, þegar þeim er gert að skera niður og hagræða, að taka fyrst og fremst út þá starfsemi sem e.t.v. á ekki heima inni á hátæknisjúkrahúsi, en viðbrögðin eru samt fyrst og fremst vegna aðgerða stjórnvalda eða ákvarðana sem teknar eru á Alþingi, sem fer með fjárveitingavaldið.

Ég vildi gjarnan geta spurt, virðulegi forseti, tvo hæstv. ráðherra í einu því einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni að það sé svo að ef hægt er að tala um bæði framlög til ýmissa heilbrigðisstofnana og hópa eins og þarna er um að ræða að þá þurfi kannski fyrst og fremst að ræða við hæstv. fjmrh. um þær fjárveitingar, rammafjárveitingar sem fara til heilbrrn., því allt stýrist þetta af því. Og Alþingi, hv. þingmenn, stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, hafa ekki haft kjark í sér til að breyta einni einustu tillögu sem frá ríkisstjórninni kemur. Þar þarf alltaf að biðja um leyfi og síðan er hægt að vísa ábyrgðinni yfir á stjórnendur Landspítala -- háskólasjúkrahúss.