Samstarf heilbrigðisstofnana

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:12:49 (5439)

2004-03-17 15:12:49# 130. lþ. 85.13 fundur 695. mál: #A samstarf heilbrigðisstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi AKG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Mér var að vísu kunnugt um flest af því efni sem hann taldi upp áðan og sennilega hef ég ekki orðað spurningar mínar alveg nógu skýrt með tilliti til þess sem mig langaði fyrst og fremst að fá að vita, þ.e. hvort það hafi verið eitthvað til umræðu í ráðuneytinu að beina sjúklingum frá stóru sjúkrahúsunum inn á minni sjúkrahúsin ýmist til aðgerða eða til þjónustu eftir aðgerðir. Því eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir kom inn á áðan eru legudagar á hátæknisjúkrahúsunum til muna dýrari en á minni sjúkrahúsunum, auk þess sem það mundi styrkja til muna starfsemi litlu sjúkrahúsanna ef sjúklingum og þjónustu við þá væri beint þangað í meira mæli en nú er gert. Ég held að það sé engin frágangssök fyrir fólk að sækja sér þjónustu á stofnanir í tveggja til þriggja klukkustunda fjarlægð frá heimaslóð, hvort sem það er í Reykjavík og nágrenni eða Akureyri og nágrenni. Við þurfum ekki að fara stóran radíus t.d. út frá Reykjavík til að finna mörg sjúkrahús sem hafa mjög góða aðstöðu sem hægt væri að nýta, bæði til aðgerða og eins til endurhæfingar, og ég tel mjög mikilvægt að fullnýta.