Samstarf heilbrigðisstofnana

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:14:51 (5440)

2004-03-17 15:14:51# 130. lþ. 85.13 fundur 695. mál: #A samstarf heilbrigðisstofnana# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Vera kann að svar mitt við fyrirspurninni hafi ekki verið tæmandi. Þetta samstarf sem hér um ræðir er mjög margs konar og það er vissulega ástæða til að auka það ef mögulegt er að flytja sjúklinga til þjónustu eftir aðgerðir. Ég veit það t.d. að fólk sem hefur verið í bæklunaraðgerðum á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hefur fengið þjónustu við Heilbrigðisstofnunina á Húsavík, svo ég nefni eitt dæmi um slíkt samstarf.

Ég held að það sé fremur um að ræða, nema þá í einhverjum örfáum tilfellum, að sjúkrahúsin geti komið sterk inn í þjónustu eftir aðgerðir á stóru sjúkrahúsunum. Það er náttúrlega þannig, eins og við hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir þekkjum bæði, að t.d. heilbrigðisstofnun Skagafjarðar hefur átt mjög mikið samstarf við stóru sjúkrahúsin og kannski er það samstarf formfastast þar af öllum heilbrigðisstofnunum og samstarf þeirra við sérfræðinga. Ég held að af því megi t.d. mikið læra að sú stofnun er mjög sterk, lýtur sterkri forustu og hefur unnið að þessu samstarfi farsællega á undanförnum árum.

Ég vil segja það að hér er hreyft mjög þörfu og athyglisverðu máli og ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að gera það.