Þverfaglegt endurhæfingarráð

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:20:22 (5442)

2004-03-17 15:20:22# 130. lþ. 85.11 fundur 615. mál: #A þverfaglegt endurhæfingarráð# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 10. þm. Norðaust. hefur beint til mín fyrirspurn í tveimur liðum, annars vegar um hvort stofnað hafi verið þverfaglegt endurhæfingarráð, hins vegar hvort frestað verði breytingum á hæfingar- og endurhæfingarþjónustu Landspítala -- háskólasjúkrahúss þar til heildstætt þverfaglegt mat hafi farið fram á þjónustuþörf þeirra einstaklinga sem nú vistast í Arnarholti og Kópavogi, og hvort endurhæfingarráð muni koma að því mati.

Því er fyrst til að svara að ekki hefur verið hrint í framkvæmd þeirri ákvörðun að koma á fót þverfaglegu endurhæfingarráði líkt og fram kemur í heilbrigðisáætlun. Mál endurhæfingar hafa verið í almennri skoðun bæði innan ráðuneytisins og meðal þeirra stofnana sem að endurhæfingu koma. Hafa þær viðræður m.a. leitt af sér vissa verkaskiptingu milli stofnananna sem ég tel af hinu góða.

Skipun hin þverfaglega endurhæfingarráðs hefur dregist af þessum sökum. Ég tel að nú verði brátt tímabært að skipa það formlega. Hins vegar hef ég skipað starfshóp eins og áður kom fram í svari mínu við fyrirspurn hv. 1. þm. Suðurk. Ég hef skipað starfshóp til að fara yfir og fjalla um þá starfsemi og skjólstæðinga sem nú vistast í húsnæði Landspítala -- háskólasjúkrahúss á lóð þess í Kópavogi og Arnarholti. Í þeim starfshópi eru, eins og áður hefur komið fram, fulltrúar frá heilbr.- og trmrn., félmrn., fjmrn. og frá Landspítalanum. Honum er ætlað að skoða sérstaklega tengsl og fyrirkomulag heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu við þessa einstaklinga og hvernig þjónustunni verði best við komið. Þá er starfshópunum einnig ætlað að athuga mögulega framtíðaruppbyggingu á þessum stöðum og skal þá horft til hugsanlegrar þjónustu á sviði heilbrigðis- og félagsmála, svo sem nýtingu lóðanna og mannvirkja til annarrar heilbrigðisþjónustu.

Ég bind miklar vonir við vinnu þessa starfshóps. Hann kynnti mér nýlega frumathugun sína á stöðu endurhæfingarmála og þeirri þjónustu sem boðin hefur verið við endurhæfingardeild Landspítalans í Kópavogi, bæði þjónustu við vistmenn sem þar dvelja og þá sem koma frá heimilum sínum. Ég tel mikilvægt að leita allra leiða til að viðhalda þeirri þjónustu sem þarna hefur verið í boði og sú vinna er nú í gangi á vegum starfshópsins og ráðuneytisins. Það er trú mín að sú mikilvæga starfsemi sem þarna hefur veitt fjölbreytta endurhæfingu geti haldið áfram en hugsanlega þá með breyttu rekstrarformi.

Eins og áður hefur komið fram hefur starfshópurinn í byrjun einbeitt sér að málum þeirra sem endurhæfingu hafa þegið í Kópavogi en mun nú snúa sér að málum þeirra skjólstæðinga sem dvelja á Arnarholti. Ég hef svarað því til að ég vona að niðurstöður liggi fyrir innan tíðar og er áríðandi að svo verði.

Eins og fram kom í svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur eru þessi mál í skoðun en vissulega er vonandi að línur fari að skýrast í þessum málum innan tíðar.