Þverfaglegt endurhæfingarráð

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:27:34 (5445)

2004-03-17 15:27:34# 130. lþ. 85.11 fundur 615. mál: #A þverfaglegt endurhæfingarráð# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:27]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að í Kópavogi hefur verið afbragðs starfsfólk. Þar fer fram mjög góð starfsemi og ég vona að starfsfólkið geti verið þar áfram. Ég ber vonir í brjósti um það.

Varðandi þessi mál almennt og aðhaldsaðgerðir Landspítalans og þessi mál tvö sem hér hafa verið til umræðu þá eru þau nú ekki að koma til umræðu núna í fyrsta skipti. Málefni Arnarholts og Kópavogshælis hafa verið til meðferðar áður en fjárlög voru afgreidd í lok síðasta árs. Þessi starfsemi hefur, eins og hér hefur komið fram, svona skarast nokkuð á við félagsleg úrræði og stjórnendur spítalans hafa oft rætt hvort þessi starfsemi eigi heima í spítalanum. Þær aðgerðir sem fóru fram núna upp úr áramótum hafa vafalaust hert á þessu málum. Ég viðurkenni það. En þetta er ekki eingöngu verið að ræða í tengslum við aðhaldsaðgerðir. Þarna er verið að ræða skipulagsmál og vonandi tekst okkur að ná farsælli niðurstöðu. Ég tel að málið sé nú í skynsamlegum farvegi og ég ber þá von í brjósti að við náum skynsamlegri niðurstöðu í þessum ofurviðkvæmu málum því þarna er um að ræða mál skjólstæðinga sem eru afar viðkvæm. Ég vona að við getum leitt þessi mál til farsællar niðurstöðu en fjárhagsmálefni Landspítalans verða auðvitað til umræðu áfram í tengslum við næstu fjárlagagerð og verður að taka afstöðu til þess hvaða áhrif tafir hafa.