Þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:44:37 (5449)

2004-03-17 15:44:37# 130. lþ. 85.95 fundur 415#B þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það er grafalvarlegt mál þegar stór hluti þjóðarinnar, þ.e. æskan, lendir í miklu atvinnuleysi. Hins vegar reiknar Vinnumálastofnun með og það liggja fyrir vísbendingar um að atvinnuleysi á árinu 2004 muni minnka frá árinu 2003 og verða að meðaltali lítið eitt hærra en 3%. Auðvitað þurfa stjórnvöld að taka svo á málum að atvinnuleysi verði ekki mikið. Við komumst aldrei hjá því, því miður, að það verði eitthvert atvinnuleysi. Hins vegar hafa Íslendingar borið þá gæfu að það hefur ekki verið mikið á Íslandi.

Það er rétt að rifja aðeins upp að það er ekki langt síðan R-listinn í Reykjavíkurborg klofnaði um afstöðu sína til ábyrgðarhlutverks vegna lántöku Landsvirkjunar. Hvernig ætli ástandið væri ef sjálfstæðismenn hefðu ekki komið þar til hjálpar til að ýta á framkvæmdina vegna Kárahnjúka?

Annað sem rétt er að benda á eru framkvæmdirnar sem fram undan eru á Grundartanga. Auðvitað er nauðsynlegt og það er gott að ríkisstjórnin haldi á málum eins og hún hefur gert. (Gripið fram í.) Allir gera sér auðvitað grein fyrir alvarleikanum sem hér er. Nú brosir hv. þm. Austfirðinga yfir miklu og góðu atvinnuástandi þar sem auðvitað kom til vegna þess að sjálfstæðismenn hjálpuðu stærstum hluta eigenda Landsvirkjunar í því að gera rétt í því máli. En merkilegt nokk kemur svo leiðandi maður Samf. og deilir á ríkisstjórn fyrir að hún skuli ekki halda betur á málum, en flokksmenn viðkomandi héldu ekki betur á málum þá en svo að það varð að draga þá að landi í þeim málum. Hvernig væri ástand og horfur hér í dag ef svo hefði ekki farið? (Gripið fram í: ... Framsóknarflokknum.)