Þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 15:59:59 (5456)

2004-03-17 15:59:59# 130. lþ. 85.95 fundur 415#B þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra# (umræður utan dagskrár), HHj
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[15:59]

Helgi Hjörvar:

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að vekja máls á því brýna efni sem hér er til umfjöllunar og sérstaklega fyrir að draga fram þá stöðu sem er í atvinnuleysi ungs fólks. Það var hins vegar heldur lítið að heyra í svörum hæstv. félmrh. um einmitt stöðu unga fólksins.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson upplýsti að hæstv. félmrh. hafi lýst því yfir í september að hann hygðist ráðast í sérstakar aðgerðir í málefnum atvinnulauss ungs fólks og innti hæstv. ráðherra eftir efndum á þeim yfirlýsingum. Hæstv. ráðherra tilgreindi engar efndir á þeim yfirlýsingum og engar aðgerðir til að vinna á þessari meinsemd í samfélagi okkar sem er vaxandi atvinnuleysi meðal ungs fólks.

Hv. þm. Kristján L. Möller hefur dregið fram hversu skammarlega lágar atvinnuleysisbæturnar eru, 88 þús. kr. Þó stjórnarliðar geti komið í ræðustólinn og lesið upp einhverjar prósentutölur um hækkanirnar á þeim bótum, borðar maður ekki prósentutölur. Það er einfaldlega ekki hægt að lifa af 88 þús. kr. á mánuði svo að vel sé. Ég vil leggja áherslu á að við þurfum að endurhugsa atvinnuleysisbæturnar.

Það er einfaldlega þannig að við erum ekki lengur tilbúin til að fórna hverju sem er til að halda háu atvinnustigi. Við megum búast við því að atvinnuleysi verði viðvarandi og jafnvel vaxandi verkefni stjórnmála, ekki bara á Íslandi heldur alþjóðlega, og við verðum að búast við því að fólk geti tímabundið um ævina átt von á því að missa atvinnu sína. Það er mikilvægt að við ræðum það hvort ekki sé rétt að fyrstu mánuðina meðan atvinnuleysi stendur hafi fólk í tekjur hlutfall af launum sínum meðan það leitar að annarri atvinnu og reynir að aðlaga sig á vinnumarkaði, en að fjárhagslega sé fótunum ekki kippt undan því og það komist í vítahring sem það getur aldrei losnað úr, viðvarandi langtímaatvinnuleysi.