Þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 16:07:06 (5459)

2004-03-17 16:07:06# 130. lþ. 85.95 fundur 415#B þróun atvinnuleysis og kjör atvinnulausra# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[16:07]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Málflutningur stjórnarandstöðunnar við umræðuna er með ólíkindum.

Hv. þm. Atli Gíslason segir um hækkun atvinnuleysisbóta á þessu ári: Bitamunur en ekki fjár. Að fara úr 77 þús. kr. á 89 þús. kr. á þremur mánuðum: Bitamunur en ekki fjár. Að hækka bæturnar um 14,6% á þremur mánuðum: Bitamunur en ekki fjár. Athyglisverð afstaða.

Stjórnarandstaðan er kannski á móti aðgerðinni eins og hún heyktist á því að greiða atkvæði með tvöföldun örorkubóta til yngstu öryrkjanna á Alþingi fyrr í vetur.

Össur Skarphéðinsson sendi fólkinu í landinu tóninn. Hann virðist vera á móti því að stjórnvöld vinni með verkalýðshreyfingunni, með atvinnurekendum að breytingum á atvinnuleysistryggingalöggjöfinni. Hann virðist vera á móti því að fólkið á Suðurnesjum, á Eyjafjarðarsvæðinu vinni gegn langtímaatvinnuleysi ungs fólks. Þetta er móðgun við fólkið í landinu.

Sá sem hér stendur rakti við fyrri umræðu þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af hálfu ríkisstjórnarinnar til að bregðast við atvinnuleysi í landinu, ekki síst langtímaatvinnuleysi. Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég undra mig á því hvernig stjórnarandstaðan hefur staðið að umræðunni.

Ég hef áður sagt að mikið hefur áunnist með breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Við eigum hins vegar að halda áfram. Við eigum að velta fyrir okkur hvort bætur eigi að einhverju leyti að taka mið af tekjum, jafnvel með sérstakri tryggingu, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar sagði í máli sínu og Framsfl. hefur ályktað um á flokksþingum sínum. Við eigum sömuleiðis að velta fyrir okkur hvort efla þurfi vinnumarkaðsaðgerðir til að stuðla enn frekar að virkri þátttöku atvinnuleitenda við vinnuleit.

En umræða á borð við þá sem stjórnarandstaðan hefur haft í frammi við utandagskrárumræðuna skilar engu. Engar lausnir, bara hróp hrópandans í eyðimörkinni.