Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:01:23 (5460)

2004-03-17 18:01:23# 130. lþ. 85.5 fundur 596. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í apríl árið 2002 var samþykkt þáltill. þingmanna úr öllum flokkum stjórnar og stjórnarandstöðu sem fjallaði um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna. Ályktunin beindi því til ríkisstjórnarinnar að skipa nefnd sem hefði það verkefni að gera tillögur um hvernig unnt væri að tryggja betur rétt foreldra til launa í fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna. Hér var átt við allan vinnumarkaðinn en ekki aðeins að fjalla um veikindarétt foreldra langveikra barna. Mér hefur fundist gæta misskilnings þar um. Nefndina átti að skipa fulltrúum félmrn., heilbr.- og trmrn., aðilum vinnumarkaðarins og Samtaka um málefni langveikra barna. Nefndin átti í starfi sínu að hafa hliðsjón af fjármögnun, fyrirkomulagi og réttindum sem gilda um bætur fyrir launatap aðstandenda sjúkra barna annars staðar á Norðurlöndum.

Ísland hefur skorið sig úr þegar gerður er samanburður á rétti foreldra vegna veikinda barna miðað við önnur Norðurlönd. Hér á landi eru aðeins greiddir tíu veikindadagar á ári vegna barna undir 13 ára aldri, óháð því hvort um langveik börn er ræða og fjölda barna. Þennan rétt er ekki hægt að flytja á milli ára hafi barn t.d. ekki verið veikt í tvö ár en yrði svo veikt í 20 daga í einu. Annars staðar á Norðurlöndum er rétturinn ýmist til 16 eða 18 ára aldurs barns og hvergi er veikindarétturinn skemmri en 2--3 mánuðir og nær hann til hvers barns um sig innan fjölskyldunnar.

Í Svíþjóð eru greidd sem samsvarar 90% launa í 120 daga á ári fyrir barn að 16 ára aldri. Í Noregi eru greidd full laun í 260 daga. Í Finnlandi eru greidd 66% af launum í 60--90 daga á ári og lengur vegna langsjúkra barna. Hér er aðeins um að ræða tíu daga almennan veikindarétt á ári.

Annars staðar á Norðurlöndum er veikindarétturinn greiddur af hinu opinbera en hér á landi eru einungis umönnunarbætur til fatlaðra og langveikra barna greiddar úr ríkissjóði.

Ég hef því leyft mér að leggja fsp. fyrir félmrh. um hvað líði framkvæmd þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi 3. maí 2002 þar sem skipa átti nefnd sem hefði það verkefni að gera tillögur um hvernig unnt væri að tryggja betur rétt foreldra til launa í fjarveru úr vinnu vegna veikinda barna. Niðurstöðurnar áttu að liggja fyrir, herra forseti, á haustþingi árið 2002 en nú er komið árið 2004.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að tveimur árum áður var samþykkt tillaga um stefnumótun í málefnum langsjúkra barna. Mér er kunnugt um að á vegum félmrh. hefur verið starfandi nefnd sem er að skoða réttarstöðu foreldra langveikra barna. Það er allt annað mál og auðvitað mjög brýnt. En þessi ályktun sem samþykkt var tveimur árum síðar fjallar um að auka almennan rétt foreldra vegna veikinda barna, allra barna en ekki einungis langsjúkra. Ég vona því að hæstv. ráðherra fari ekki að rugla þessu tvennu saman í svari sínu sem ég vænti að verði skýrt og skilmerkilegt.