Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:04:30 (5461)

2004-03-17 18:04:30# 130. lþ. 85.5 fundur 596. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:04]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spyr um hvað líði framkvæmd þál. um skipun nefndar sem átti að gera tillögur um hvernig unnt væri að tryggja betur rétt foreldra til fjarveru úr vinnu vegna veikinda barna.

Félmrh. skipaði nefnd þann 29. janúar 2001 sem hafði það hlutverk að tryggja betur en nú er rétt foreldra til launa í fjarveru frá vinnu og rétt til sjúkradagpeninga vegna langvarandi veikinda barna. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar félagsmálaráðuneytis, sem er formaður nefndarinnar, fulltrúi fjármálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, Bandalags háskólamanna, Samtaka atvinnulífs, Bandalags ríkis og bæja, ASÍ og fulltrúi Umhyggju. Í ljósi þess að þegar var starfandi nefnd sem falið hafði verið að fjalla um sambærilegt efni og ályktunin hljóðaði upp á, sem skipuð hafði verið á sambærilegan hátt og þar var kveðið á um, var ákveðið að fela nefndinni jafnframt framkvæmd umræddrar þingsályktunar.

Skipun nefndarinnar var í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í málefnum langveikra barna frá febrúar 2000 þar sem kemur fram að stuðla skuli að aðgerðum sem beinast að því að tryggja enn betur rétt langveikra barna og foreldra þeirra á sviði almannatrygginga og að fjárhagsleg aðstoð vegna langveikra barna verði aukin. Þá segir að aukinn verði réttur foreldra á vinnumarkaði. Var markmið skipunar nefndarinnar að finna leiðir í því skyni að auka rétt foreldra á vinnumarkaði til að sinna langveiku barni heima enda ljóst að fjarvera foreldra langveikra barna frá vinnu getur verið mikil.

Nefndin hefur, hæstv. forseti, víða leitað fanga og m.a. kynnt sér fyrirkomulag þessara mála á Norðurlöndunum. Þá kynnti nefndin sér mismunandi réttindakerfi sjúkrasjóða og styrktarsjóða stéttarfélaganna. Eins hefur hún reynt að átta sig á hversu stóran hóp foreldra er um að ræða sem leggja þarf niður störf vegna veikinda barna sinna.

Það sem helst hefur staðið störfum nefndarinnar fyrir þrifum er að ekki liggja fyrir nægjanlegar upplýsingar um aðstæður fjölskyldna langveikra barna, þar á meðal hversu margir foreldrar þurfa að leggja niður störf þegar barn þeirra greinist með langvarandi veikindi, í hve langan tíma og hve mikinn viðbótarkostnað fjölskyldur þeirra bera vegna veikindanna. Ekki er ólíklegt að fyrri nefndir hafi staðið frammi fyrir sambærilegum vanda. Þótti því mikilvægt að kanna hverjar raunverulegar aðstæður fjölskyldna þessara barna eru, í stað þess að nefndin kæmi fram með tillögur sem ekki væru forsendur til að fylgja. Það væri einungis vísir að stofnun annarrar nefndar.

Vorið 2003 sendi nefndin út spurningalista til foreldra langveikra barna. Úrtakið reyndist ekki gefa rétta mynd af þessum hópi þar sem nokkuð var um styrktaraðila sem og foreldra eldri barna sem jafnvel höfðu náð heilsu á nýjan leik. Nú stendur til að gera nýja könnun meðal þessa hóps þar sem fundið verði betra úrtak sem ætla má að endurspegli betur ástandið en fyrra úrtakið. Standa vonir til að niðurstöður þeirrar könnunar liggi fyrir í vor.

Hæstv. forseti. Af þeim sökum sem hér hafa verið raktar hefur því miður dregist að ljúka störfum nefndarinnar. Sá er hér stendur hefur óskað eftir því að nefndin ljúki störfum fyrir 15. maí næstkomandi, þegar niðurstöður könnunarinnar liggja fyrir. Þær upplýsingar munu koma fram í lokaskýrslu nefndarinnar ásamt tillögum að leiðum til að bæta kjör foreldra þeirra barna sem hér um ræðir. Félmrn. telur að jafnframt verði varpað ljósi á hvernig megi betur tryggja rétt foreldra barna til launa vegna fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna, eins og þingsályktunin kveður á um. Niðurstöður nefndarinnar verða kynntar þingmönnum við fyrstu hentugleika.

Hæstv. forseti. Það er ljóst að skiptar skoðanir eru um hvernig megi stuðla að bættum réttindum foreldra þessara barna á vinnumarkaði. Það er mjög æskilegt að samstaða náist um slíkra tillögur. Þess vegna þótti mikilvægt að kanna raunverulegar aðstæður þessa hóps í því skyni að átta sig betur á umfangi verkefnisins.