Aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:08:25 (5462)

2004-03-17 18:08:25# 130. lþ. 85.5 fundur 596. mál: #A aukinn réttur foreldra vegna veikinda barna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:08]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði að hæstv. ráðherra mundi rugla saman þessum tveim ályktunum sem Alþingi samþykkti, annars vegar sérstakri ályktun um stefnumótun í málefnum langsjúkra barna og hins vegar tillögu sem samþykkt var tveimur árum síðar, um aukinn rétt foreldra vegna veikinda barna. Ég hef haft af því spurnir, herra forseti, hjá þeim sem sitja í þeirri nefnd sem hæstv. ráðherra tilgreindi, að þar hafi ekkert verið fjallað um almennt aukinn rétt foreldra veikra barna heldur einungis langsjúkra barna. Ályktunin sem ég er að spyrja ráðherrann um fjallar um almennt aukinn rétt foreldra á vinnumarkaði vegna veikinda barna. Þar er ekki einungis fjallað um foreldra langveikra barna. Um þá var sérstök ályktun sem ég geri ekki lítið úr. Hún er afar mikilvæg og þarf að fara að skila niðurstöðu.

En ég spyr hæstv. ráðherra aftur: Hvernig stendur á því að í nefndinni hefur ekki verið fjallað almennt um veikindarétt foreldra vegna veikinda barna? Tillagan fól það í sér. Það átti að skoða skipulag og fyrirkomulag þessara mála annars staðar á Norðurlöndum þar sem veikindaréttur er að lágmarki 2--3 mánuðir á ári meðan við erum með tíu daga almennan veikindarétt vegna veikinda barna. Hvernig stendur á því að nefndin hefur ekki fengið fyrirmæli frá ráðherra fyrst hæstv. ráðherra skipaði ekki nýja nefnd í samræmi við þessa nýju ályktun til að taka sérstaklega á því máli? Sú ályktun snýst ekki bara um aðstæður foreldra langveikra barna þótt það sé líka mikilvægt. Langveikum börnum hefur fjölgað verulega. Frá 1997 hefur langveikum börnum fjölgað um helming, þ.e. þeirra sem fá umönnunarbætur. Þeim hefur fjölgað úr 2.000 í 4.440. Þar er um mikinn vanda að ræða.

En ég og við sem stóðum að þessari þáltill., þingmenn úr öllum flokkum, vildum skoða hvort bæri að auka almennt veikindaréttindi foreldra á almennum markaði. Það er allt annar handleggur og þar erum við að tala um tugi þúsunda barna. Ég bið því hæstv. að svara því sem um er spurt.