Hættumat fyrir sumarhúsabyggð

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:24:58 (5469)

2004-03-17 18:24:58# 130. lþ. 85.7 fundur 593. mál: #A hættumat fyrir sumarhúsabyggð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh.: Hver er ástæðan fyrir þeim drætti sem hefur orðið á gerð hættumats fyrir fyrirhugaðar sumarhúsabyggðir á grundvelli laga um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 49/1997, en Veðurstofan hefur ekki fengið heimild til að vinna slíkt mat síðasta hálfa árið?

Ástæðan fyrir því að ég ber upp þessa spurningu er að sveitarfélag í kjördæmi sjálfs hæstv. byggðamálaráðherra hefur ekki fengið afgreitt erindi þar sem óskað er eftir bráðabirgðahættumati vegna ofanflóða vegna frístundabyggðar á Grund í Grýtubakkahreppi. Erindið hefur ekki fengið neina afgreiðslu frá því 15. október sl. Í bréfi Veðurstofu Íslands til Guðnýjar Sverrisdóttur sveitarstjóra, dags. 25. nóvember sl., kemur fram að ástæðan fyrir drættinum væri sú að ekki sé ljóst hver eigi að greiða fyrir hættumatið. Ég hafna alfarið þeirri skýringu sem kemur fram í umræddu bréfi þar sem ég tel að skýr lagafyrirmæli segi til um það að Ofanflóðasjóður eigi að greiða fyrir slíkt hættumat. Og í umræddu bréfi Veðurstofunnar kemur enn fremur fram að Ofanflóðasjóður hafi greitt sambærilegt mat fram til þessa. Nú er fullljóst að reglugerðir og lög hafa ekki breyst, heldur einungis túlkun Ofanflóðasjóðs á lögun og reglum.

Í framhaldi af því vakna þær spurningar hvort Ofanflóðasjóður hafi þá áður veitt opinbert fé án þess að hafa heimild fyrir því. Menn verða að hafa einhverjar málefnalegar ástæður fyrir því að breyta túlkun reglugerðanna. Auðvitað er það mjög undarleg stjórnsýsla að menn geti tekið upp á sitt eindæmi að túlka reglur mismunandi frá mánuði til mánaðar.

Ég vil að lokum minna á að með töfum á afgreiðslu erinda er verið að koma í veg fyrir atvinnuuppbyggingu í dreifbýli og það kemur mér undarlega fyrir sjónir að hæstv. ráðherra skuli tefja fyrir atvinnuuppbyggingu í hjarta kjördæmis sjálfs byggðamálaráðherra.