Hættumat fyrir sumarhúsabyggð

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:32:23 (5472)

2004-03-17 18:32:23# 130. lþ. 85.7 fundur 593. mál: #A hættumat fyrir sumarhúsabyggð# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:32]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á röksemdafærslunni í ræðu hv. þm. sem heldur því fram að við séum hætt að vinna eftir lögunum. Það er alls ekki þannig. Eins og stendur í 4. gr. laganna, með leyfi hæstv. forseta:

,,Skal hættumat fyrst og fremst ná til þéttbýlis og svæða þar sem þétt byggð er fyrirhuguð. Jafnframt (SigurjÞ: Viltu ekki lesa 13. gr. líka?) fari slíkt mat fram á skipulögðum skíðasvæðum.``

Megintilgangurinn með lögunum er að meta ofanflóðahættu á svæðum þar sem fólk er í dag. Menn eru aðallega að leysa þann fortíðarvanda sem skapast hafði á þéttbýlisstöðunum þar sem menn höfðu byggt upp vegna vanþekkingar á hegðun náttúruaflanna. Eftir þeirri forgangsröðun er verið að vinna. Ég taldi upp í fyrra svari mínu að hættumatið er komið ágætlega áleiðis, búið er að staðfesta að það eru átta þéttbýlisstaðir en ekki er búið að klára það fyrir nokkuð marga aðra.

Það er því svo sannarlega, hæstv. forseti, verið að vinna eftir lögunum og vinna eftir þeirri forgangsröðun sem gerð var. Ef hins vegar aðrir vilja fara út í að vinna hættumat vegna fyrirhugaðrar byggðar sem menn vilja reisa geta þeir gert það á eigin kostnað, en meðan staðan er svona vinnum við eftir forgangsröðuninni sem var sett upp.