Veiðikort

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:42:17 (5478)

2004-03-17 18:42:17# 130. lþ. 85.9 fundur 705. mál: #A veiðikort# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:42]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Það býr margt í þokunni, þar á meðal rjúpan. Nú er komið fyrsta tímabil af umdeildu rjúpnaveiðibanni sem hæstv. umhvrh. setti í haust og frægt er. Ég tel að veiðibann af þessu tagi sé úrræði sem ekki á að grípa til nema í neyð og það eigi að standa eins stutt og hægt er.

Ein af ástæðum þess eru auðvitað veiðimennirnir. Ég er sannfærður um að þó misjafn sauður sé í mörgu fé vill meiri hluti rjúpnaveiðimanna vel og ég held að það hefði verið mjög mikilvægt að halda áfram því samstarfi umhverfisstjórnvalda, vísindamanna og veiðimanna sem tókst á síðasta áratug með reglum um veiðikort, hæfnispróf og rannsóknir. Þess er rétt og skylt fyrir mig að minnast að það var tekið upp á tímum hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar í umhvrn.

Ef vel er staðið að málum geta veiðimenn orðið hluti af hinum græna her almennings sem á að vera umhverfisvernd í landinu gríðarlegur styrkur. Fáir eru í raun meiri vinir rjúpunnar en einmitt þessir áhugaveiðimenn sem við erum að tala um eða meiri kunnáttumenn um hagi hennar. Hættan núna við veiðibannið og aðferðir umhvrh. við að setja það á og viðhalda því er sú að veiðimennirnir séu gengnir úr bandalaginu og komi e.t.v. ekki í það aftur.

Það er sérstakt áhyggjuefni vegna þess kerfis sem hefur verið tekið upp í kringum veiðikortin að fé til rannsókna kunni að skorta vegna þess að fé til rannsókna á þessu sviði er nú einkum bundið við veiðikortasjóðinn, þó það hafi ekki verið meiningin í upphafi og sé í raun og veru óeðlileg regla um þessi mál.

Rannsóknir eru einmitt núna sérstaklega mikilvægar og hafa aldrei verið mikilvægari vegna þess að án þeirra verður markmiðum verndaraðgerða, hverjar sem þær eru, og einkum þeirra sem nú standa yfir því þær kosta verulegar fórnir af margra hálfu, ekki náð nema að hluta til. Þess vegna eru þessar fyrirspurnir sem varða tekjur af veiðikortagjaldi síðustu þrjú ár og á þessu ári um rannsóknir, um hvernig þessum tekjum var ráðstafað, um ráðstafanir ráðherra til að tryggja fjármagn til rannsókna á rjúpustofninum nú og um gildi upplýsinga úr veiðikortum.