Veiðikort

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:45:12 (5479)

2004-03-17 18:45:12# 130. lþ. 85.9 fundur 705. mál: #A veiðikort# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:45]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hverjar voru tekjur af veiðikortagjaldi árin 2001, 2002 og 2003? Hverjar eru áætlaðar tekjur fyrir árið 2004?``

Því er til að svara að heildartekjur sjóðsins árin 2001--2003 eru 58,7 millj. kr. sem skiptast þannig milli ára: 19,8 millj. kr. árið 2001, 20,2 millj. kr. árið 2002 og 18,7 millj. kr. árið 2003. Umhverfisstofnun gerir ráð fyrir að tekjur sjóðsins árið 2004 nemi um 15 millj. kr.

Í öðru lagi er spurt: ,,Hversu mikið af tekjunum fór hvert ár um sig annars vegar til rannsókna og hins vegar til vöktunar og stýringar á stofnum villtra dýra? Hver er áætlunin fyrir 2004?``

Því er til að svara að frá 1. júlí 1994 þegar veiðikortasjóður tók til starfa skv. lögum nr. 63/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, hefur tekjum sjóðsins að frádregnum kostnaði við rekstur veiðikortakerfisins, sem nemur um 6 millj. kr. á ári, verið úthlutað til rannsókna og vöktunar stofna veiðidýra.

Úthlutun frá og með 2001 hefur verið sem hér segir: Árið 2001 fara 6,5 milljónir til vöktunar á rjúpu, 1,6 milljónir í refarannsóknir og 4,2 milljónir í rannsóknir á gæsum og öndum. Árið 2002 fara 6,6 milljónir í vöktun á rjúpu, 1,8 milljónir í refarannsóknir, 1,2 milljónir í rannsóknir á gæsum og öndum. Árið 2003 fara 6 millj. kr. í rannsóknir á rjúpu, 6 millj. kr. í vöktun á rjúpu, 1,8 millj. kr. í refarannsóknir, ekki er gefin upp tala í rannsóknir á gæsum og öndum. Árið 2004 fara 3,5 millj. kr. í rannsóknir á rjúpu, 6 millj. kr. í vöktun á rjúpu og 1,8 millj. kr. í refarannsóknir, ekki er gefin upp tala í rannsóknir á gæsum og öndum.

Það er því alveg ljóst að fé til rjúpnarannsókna hefur verið stóraukið árið 2003--2004, en rannsóknirnar voru dýrari í upphafi, þ.e. árið 2003.

Í þriðja lagi er spurt: ,,Hefur ráðherra gert ráðstafanir til að tryggja fé til rannsókna á rjúpnastofninum nú og næstu ár vegna minnkandi tekna veiðikortasjóðs?``

Því er til svara að vegna rjúpnaveiðibanns er viðbúið að tekjur sjóðsins dragist saman eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda. Gerðar verða tillögur til þess að mæta þeim kostnaði sem hugsanlega verður ekki mætt vegna samdráttar í tekjum sjóðsins við fjárlagagerð í haust.

Í fjórða lagi er spurt: ,,Hefur gildi upplýsinga úr veiðikortum breyst eftir að kunnugt varð um núverandi rjúpnaveiðibann?``

Því er til að svara að gildi upplýsinga í veiðiskýrslum er háð því hvernig menn skrá veiði í veiðiskýrslur til Umhverfisstofnunar. Skil á veiðiskýrslum fyrir árið 2002 dróst saman og miðað við skil undanfarinna ára vantar enn um 2.000 skýrslur um veiðiárið 2002. Þá eru brögð að því í veiðiskýrslum fyrir árið 2003 að gefnar séu upp bersýnilega rangar tölur og gætir þess sérstaklega í veiðitölum fyrir rjúpur og gæsir. Það er því ljóst að gildi veiðiskýrslna og upplýsinga um veiði hefur breyst og mikil vinna er fyrirsjáanleg við að vinsa úr þær veiðiskýrslur sem augljóslega eru rangt færðar til þess að hægt verði að nýta þær veiðitölur sem eru réttar.

Af þessu tilefni vil ég sérstaklega taka fram að formaður Skotvíss, Sigmar B. Hauksson, hefur skorað á félagsmenn sína að skila réttum veiðitölum í veiðiskýrslur og dregið fram að það væri auðvitað sjálfum þeim til góða. En það er greinilegt að þrátt fyrir þau tilmæli allra hlutaðeigandi aðila til skotveiðimanna hafa ekki allir hlýtt því kalli, því miður.