Veiðikort

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 18:51:55 (5482)

2004-03-17 18:51:55# 130. lþ. 85.9 fundur 705. mál: #A veiðikort# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[18:51]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Veiðibannið var sett á vegna eindreginnar ráðgjafar Náttúrufræðistofnunar. Átti ég fundi með bæði forstjóra þeirrar stofnunar, Jóni Gunnari Ottóssyni, og vísindamönnum hennar, fuglafræðingum. Þeir lögðu til að skynsamlegast væri að setja veiðibann til fimm ára með endurskoðunarmöguleika eftir þrjú ár. Það var vegna þess að stofninn á að vera í svokölluðum tíu ára sveiflum, það er hans náttúrulega ferli. Stofninn var í lágmarki og hann óx ekki um 50% milli ára eins og áætlað var heldur um u.þ.b. 20% milli ára. Þannig að hann var ekki í sjálfbærum sveiflum, ef svo má að orði komast.

Það var mitt mat að við ættum að banna rjúpnaveiðar í þrjú ár, en ekki fimm ár með endurskoðunarmöguleika eftir þrjú ár. Það varð niðurstaðan. Að sjálfsögðu vonast ég til þess að rjúpnastofninn nái að vaxa núna þannig að hann rétti úr kútnum. Við sjáum því vonandi hækkandi tölur í talningunum. En þessi þrjú ár voru hugsuð til þess að stofninn fengi tækifæri til að ná sér almennilega á strik. Það er þess vegna ekkert sem bendir til þess í augnablikinu að banninu verði breytt.

Nú er að störfum nefnd, sjö manna nefnd hagsmunaaðila, sem er að undirbúa tillögur um í hvaða formi veiðin á að vera þegar hún hefst aftur. Og það er alveg öruggt að mínu mati að við munum ekki búa við sama kerfi og áður. Það verða einhvers konar frekari takmarkanir, líklega miklu stærri uppvaxtarsvæði og líklega sölubann í framtíðinni og fleiri aðgerðir sem grípa verður til til þess að fleiri geti veitt.