Hálkuvarnir á þjóðvegum

Miðvikudaginn 17. mars 2004, kl. 19:03:58 (5486)

2004-03-17 19:03:58# 130. lþ. 85.18 fundur 636. mál: #A hálkuvarnir á þjóðvegum# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 130. lþ.

[19:03]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin og þær áherslur sem hann kemur með í umræðuna, um að þörf sé á stöðugri endurskoðun á öryggisreglum, m.a. með tilliti til hálkuvarna. Ég vil draga þetta mál fram því að landsmenn verða stöðugt háðari því að komast á milli staða. Hálkuvarnir eru einmitt mikilvægur hlekkur í því að tryggja öryggi í umferð.

Ég vil ítreka að við höfum samþykkt áætlun í umferðaröryggismálum. Það væri ekki óeðlilegt að hún fengi forgang og aukið verði fjármagn inn í vegáætlunina. Ég er jafnframt klár á því að bættir vegir auka umferðaröryggi. En hér er líka um sértækt mál að ræða, þ.e. hálku á þjóðvegum. Hálkan eykst jafnvel við að komið er bundið slitlag á vegi og verður enn þá hættulegri. Þess vegna er enn meiri ástæða til að taka hálkuvarnir inn í þetta mál.

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þeirri flokkun sem hæstv. ráðherra lýsti, um hvenær hálkuvörnum skuli beitt. Þegar ég keyri af stað frá Reykjavík og norður í land, norður í Skagafjörð eða norður á Strandir geri ég mér ekki grein fyrir að ákveðinn vegur eða vegarspotti sé flokkaður niður eftir hálkuvörnum. Á hálkunni þarf maður að átta sig eftir því sem maður keyrir eftir veginum. Ég skora á hæstv. samgrh. að beita sér enn frekar í umferðaröryggismálum. Ég hvet til að auka til þeirra fjármagn til að vinnubrögð varðandi hálkuvarnir verði samhæfð og allar aðalleiðir falli undir þennan flokk númer eitt sem hæstv. ráðherra lýsti áðan.