Starfsskilyrði héraðsdómstólanna

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 10:45:34 (5498)

2004-03-18 10:45:34# 130. lþ. 86.95 fundur 420#B starfsskilyrði héraðsdómstólanna# (umræður utan dagskrár), JBjart
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[10:45]

Jónína Bjartmarz:

Frú forseti. Hv. málshefjandi og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafa báðir gert grein fyrir orsökum þess rekstrarvanda og hallareksturs sem héraðsdómstólarnir hafa staðið frammi fyrir undanfarin fjögur ár og ég ætla ekki að rekja það nánar. En ein ástæðan er sú að fjárveitingar hafa ekki tekið að fullu tillit til kostnaðarins við rekstur dómstólaráðsins, sem er stjórnarnefnd héraðsdómstólanna.

Dómstólaráði var með dómstólalögum falið mjög víðtækt og veigamikið hlutverk, m.a. að gera tillögur til ráðherra um fjárveitingar til dómstólanna. Ráðið þurfti framan af að berjast fyrir tilvist sinni en því hefur nú tekist að ráða einn starfsmann eða, réttara sagt, fjárveitingar standa undir einum starfsmanni. Langstærstur hluti eða stærsta verkefni ráðsins til þessa hefur verið að berjast fyrir nægjanlegu rekstrarfé til dómstólanna.

Mér finnst í þessu samhengi nauðsynlegt að hafa hugfast að í huga löggjafans á sínum tíma þegar dómstólaráði var komið á var eitt meginmarkmið laganna að tryggja sjálfstæði dómstólanna og hvað héraðsdómstólana varðar var sú leið að koma á dómstólaráði eitt meginatriðið.

Þetta hefur ekki gengið eftir heldur hefur þvert á móti sigið stöðugt á ógæfuhliðina síðan lögin voru sett 1998 eins og allar upplýsingar og tölulegar staðreyndir sýna fram á. Mér finnst í þessu tilliti að stórar efasemdir hljóti að vakna um það hvort dómstólarnir eru nægjanlega óháðir og sjálfstæðir gagnvart framkvæmdarvaldinu og hvort aðkoma framkvæmdarvaldsins að fjárveitingum dómstólanna, auk þess að skipa í dómaraembættin, tryggi þá stjórnskipun eða það öryggi sem stjórnskipuninni er ætlað að tryggja og við teljum ásættanlegt. Eins og við vitum er hlutverk dómstólanna m.a. að hafa eftirlit með hinum þáttum stjórnskipunarinnar, þáttum ríkisvaldsins, löggjafarvaldinu og framkvæmdarvaldinu. Það hlýtur að vera sameiginlega á ábyrgð ráðherra og Alþingis að tryggja þeim eðlilegan starfsgrundvöll og sjálfstæði í störfum sínum (Forseti hringir.) svo og að standa vörð um réttaröryggi almennings.