Starfsskilyrði héraðsdómstólanna

Fimmtudaginn 18. mars 2004, kl. 11:02:02 (5505)

2004-03-18 11:02:02# 130. lþ. 86.95 fundur 420#B starfsskilyrði héraðsdómstólanna# (umræður utan dagskrár), Flm. JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 130. lþ.

[11:02]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og ég met það við hæstv. dómsmrh. að í lok ræðu sinnar hafi hann viðurkennt og lofað að athuga mál dómstólanna, bæði hvernig styrkja megi og efla starfsskilyrði þeirra, alla vega túlkaði ég orð hæstv. ráðherra svo, og einnig að huga að því að þeir búi við það fjárhagslega öryggi sem nauðsynlegt er til að tryggja starfsemi þeirra. Annað væri hrein léttúð. Annað væri hreint og beint að skella skollaeyrum við hógværum, alvarlegum ábendingum frá þeim sem rækja dómstörf hér á landi, Dómarafélaginu og dómstólaráði.

Það er ekki nokkur vafi á því og ég held að enginn okkar efist um það í raun að þessir aðilar senda ekki frá sér ályktun nema þeir telji ástæðu til. Það er þess vegna ósanngjarnt að láta að því liggja að allt sé í lagi vegna þess að mál gangi þó eins og er, því að sjálfsögðu reyna þessar stéttir, sem fara með eina þrístoð lýðræðisins sem er dómsvaldið, að vinna verk sín eins hratt og vel og nokkur kostur er. Dómarastéttirnar hafa einmitt greint frá því að með miklu vinnuálagi reyni þær að sjálfsögðu að bregðast við fjölgun mála og auknum kröfum þannig að þessar stéttir standa svo sannarlega undir því hlutverki sem þeim er ætlað í lýðræðisþjóðfélagi. Það er síðan okkar að búa þeim þau starfsskilyrði að svo geti verið. Ég tek undir þá áskorun hér að hugað verði að því að dómstólar verði færðir beint undir Alþingi og frá framkvæmdarvaldinu til að tryggja sjálfstæði þeirra.